Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Stuttmynd

Stulli og vinir hans hafa framleitt sínu fyrstu kvikmynd.  Þeir hafa nú sett hana á Netið svo þeir sem vilja geti notið hennar.   Ef ég skil þetta rétt er komið framhald af myndinni sem einnig verður innan tíðar sett á netið.

Slóðin er á þessum link: The Grandma I: Finding LeifArnar
Þegar síðan opnast er bara að bíða smá og myndin fer að rúlla á hvítatjaldinu.

Endilega lítið á þetta.


Áfram KS

Til hamingju Þórir.  KS á Siglufirði er eitt fárra knattspyrnufélaga í landinu sem ég veit að ekki hefur verið skuldsett upp fyrir haus.   Félagið hefur einnig margan góðan knattspyrnumanninn alið; nærtækasta dæmið er Grétar Rafn Steinsson landsliðsmaður.
mbl.is Þórir ráðinn framkvæmdastjóri KSÍ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blessuð fjallagrösin

Merkilegt finnst mér núna 25 - 30 árum síðar að vera alin upp við not á fjallagrösum.   Þegar fjallagrös voru borðuð heima í Dölum fannst mér þau vera gott dæmi um að allt holt væri vont.  Hinsvegar fanst mér gaman að fara á grasafjall með mömmu og systrum mínum.  Reyndar stólaði mamma á suddaveður stundum til að sjá grösin betur.

Núna semsagt mörgum árum seinna nota ég grösin mikið til að róa maga og mýkja háls.  Mér finnst þau meira segja ekki vond lengur.  Lækningamáttur þeirra er talsverður og hollustan ótvíræð.  Læt hér fylgja með slóð: http://www2.ecweb.is/heilsa/baetiefni/?ew_1_cat_id=18106&ew_1_p_id=16936035


Skírður Thorbjorn Micael

Skírn 03Ætlaði nú að vera búinn að koma inn með þennan viðburð í fjölskyldunni fyrr.  En myndavélin mín gleymdist í Reykjavík svo það er nú fyrst sem ég geri þessu skil.

En Sólveig systir kom upp til landsins frá Danmörku nýlega með sinn danska mann og tengdaforeldra.  Synir hennar þeir Ingemar og óskírður voru með í för.  Aðalerindið var að láta skíra þann minnsta.  Til verksins var að sjálfsögðu fengin systir okkar síra Helga Helena sem sér nú um öll prestverk í fjölskyldunni.

Skírnin fór fram í heimahúsi pabba og mömmu á Álftanesinu 3.febrúar sem svo skemmtilega vill til að er einnig afmælisdagur Sólveigar.  Allt fór þetta vel fram og eins og venjulega klikkaði stórfjölskyldan hvorki á því að hafa mikið af góðum mat né að borða vel af honum.  Drengurinn fékk nafnið Thorbjorn Micael Sólveigarson.

Til hamingu Sólveig, Henrik, Ingemar og Thorbjorn


Umferðamiðstöð á hálendinu

Ég er svo draumsýnn að ég hef alltaf séð fyrir mér veg uppá Sprengisand og þar væru vegamót og glæsilega hálendismiðstöð með SS pulsum og allt.  Þaðan væri hægt að aka niður í Skagafjörð, Eyjafjörð, Bárðardal og Jökuldal og þaðan til Egilsstaða.    Með vegagerð yfir Kjöl er þessi framtíðarsýn mín nú ekki alveg að passa.

En auðvitað er ekki hægt að setja sig á móti nýjum og betri Kjalvegi.  Skil samt ekki nauðsyn einkaframkvæmdarinnar.   Má  Vegagerð ríkisins ekki bara búa til veginn og taka fyrir það gjald af þeim sem nota hann ?  


mbl.is Vilja hefja undirbúning nýs vegar yfir Kjöl í einkaframkvæmd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Efri árin mín eru framundan

Undanfarin ár hafa aldraðir á Íslandi hótað því að stofna stjórnmálaflokk til að koma sínum málum betur í umræðuna.  Allir stjórnmálaflokkar hér á Fróni telja að slíkur flokkur munu ekki ná neinu fram.    En nú er komið að því að aldraðir standa við orð sín.   Sú kynslóð sem nú er komin á sín efri ár er ekki jafn kröfulausir þyggjendur og fyrir 10 - 15 árum þegar mátti bjóða þeim elstu hvað sem var.  Þetta er að stærri hluta en áður fólk sem lítur á það sem skýlausan rétt sinn að fá að njóta efri ára sinna í stað þess að setjast hljóðir hjá eftir að atvinnuþátttöku lýkur.

Þetta fullorðna fólk sem nú leggur í stjórnmálabaráttu til þess að bæta kjör sín og stöðu er einnig að gera það fyrir okkur; alla þá sem seinna verða aldraðir.  Því höfðar þetta framboð sannarlega til allra landsmanna, án tillits til aldurs.

Ég óska þeim gæfu og góðs gengis.

 


Klikk, klikk ...klikkaðir foreldrar

Nú nýlega komst upp um foreldra sem höfðu læst stúlkubarn sitt tvö ár inni í herbergi.  Af einhverjum ástæðum byrjaði þetta sem refsing sem hélt svo áfram dag eftir dag, mánuð eftir mánuð og ár eftir ár.  Þegar stúlkan fór að heyra raddir í skelfilegri einangrun sinni og farið var með hana á sjúkrahús, komst upp um foreldrana.

Það er ljóst að eitthvað hefur brunnið yfir og skammhlaup orðið í uppeldisaðferðum foreldranna.  Einhverskonar kerfisbilun, sem leiddi til þess að þeir "klikkuðu" og fóru að breyta rangt.   Það sem veldur manni nú samt mestum ugg er að þessar "bilanir" virðast færast í vöxt.   Maður heyrir nú reglulega furðulegar sögur af börnum sem hafa alist upp við hin undarlegustu aðstæður.

Hvað þarf eiginlega til þess að maður "klikki" svona rosalega ?  Það reyndar fylgir yfirleitt aldrei sögunni...hæsta lagi að viðkomandi hafi ekki verið heill á geði.   En mér virðist sem fólk sé bara í miklu meiri mæli að "klikka" eða "snappa" með herfilegum afleiðingum.


mbl.is Stúlka lokuð inni í herbergi í tvö ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að halda dáin upp á jólin

Það eru komnir einhverjir áratugir síðan maður heyrði fyrst um það í erlendum fréttum að fólk væri að finnast látið í íbúðum sínum löngu eftir að það dó.  Svo mikil er einsemdin og afskiptaleysið að í einhverjum tilfellum var fólk búið að vera dáið í einhver ár áður en það fannst.   Slíkt fólk kom þá oftast í leitirnar þegar viðkomandi höfðu ekki borgað hita, rafmagn eða leigu mánuðum saman.

Þetta var þá fjarlægur atburður þótt óhugnalegur væri.  Nú berast innlendar fréttir af því að enginn hafi saknað níræðrar konu um liðin jól.  Enginn ættingi eða vinur fylgdist með henni.  Það gerðu nágrannar hinsvegar að einhverju marki, sem betur fer, og létu lögreglu vita þegar gamla konan hafði ekki sést í nokkurn tíma. 

 Þótt hér sé tíminn ekki talinn í árum bregður manni samt.   Er virkilega hægt í okkar samfélagi að verða slíkur einstæðingur að enginn taki eftir því þegar maður deyr ?  Erfitt er að trúa  slíku og erfitt er að kyngja þessum staðreyndum.


mbl.is Öldruð kona fannst látin í íbúð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flóðið í Ölfusá

c_gogn_myndirnar_minar_mislegt_olfusa_020504.jpg

Flóðin í Ölfusá eru af tvenns konar uppruna; vetrarflóð og haustflóð.  Algengari eru vetrarflóðin svokölluðu.  Þá hrannast upp ís til móts við Brúnastaði þar sem Hvítáin rennur í þrengingum fyrir suðurenda Hestfjalls. Þessi flóð verða oftast í nokkurri leysingu að vetri til, en ísstíflan skiptir miklu um eðli og stærð flóðsins.

Hin tegundin, og þau eru fátíðari, eru haustflóðin. Flóðið nú fyrir skömmu var af þeirri gerðinni. Sigurjón Rist segir almennt um haustflóð að þau verði þegar frostakafla geri snemma hausts, sem gerir jörð algerlega vatnshelda. Þá leggist nokkurt snjóalag yfir allt vatnasvið árinnar og að síðustu komi vatnsþrungin lægð upp að landinu sem veldur snöggri hitabreytingu og ofsaregni með sterkum vindi.  Allir þessir þættir fóru saman nú. Þó er ljóst að engar beinar upplýsingar var að hafa af snjóalögum á hinu geysivíðfeðma vatnasviði Hvítár á afrétttum þeirra Tungnamanna og Hrunamanna.  Við vitum vatnsmagnið í heild sinni, en hvað af því var úrkoma sem féll á einum sólarhring og hvað kom frá auðleystum snjónum sem fyrir var vitum við ekki.

Upplýsingar fengnar m.a af www.esv.blog.is 


Þreytumst ekki að gjöra gott

Fólk er oft sjálfselskt, óskiljanlegt og ótryggt
- fyrirgefðu því samt.
Ef þú ert örlátur muntu ef til vill verða ásakaður
um sjálfselsku
- vertu samt örlátur.

Ef þér vegnar vel muntu eignast falska vini
og sanna óvini
- leitastu samt við að vegna vel.
Ef þú ert heiðarlegur og hreinskiptinn þá mun
fólk ef til vill notfæra sér þig
- vertu samt heiðarlegur og hreinskiptinn.

Það sem þú hefur eytt árum í að byggja upp
mun einhver ef til vill eyðileggja á einni nóttu
- byggðu samt.
Ef þú finnur frið og hamingju verður einhver ef
til vill öfundsjúkur
- vertu samt hamingjusamur.

Það góða sem þú gerir í dag verður ef til vill
gleymt á morgun.
- Gerðu samt góðverk í dag.
Gefðu heiminum það besta sem þú getur, og
það ær áreiðanlega skammt.
- Gefðu samt það besta sem þú getur.

Því þegar allt kemur til alls þá er þetta allt milli
þín og Guðs.
- það var aldrei milli þín og hinna.
(Móðir Teresa)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Bloggari

Eyjólfur Sturlaugsson
Dalamaður 
eyjolfur.sturlaugsson@gmail.com

 

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.5.): 4
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 206405

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband