Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Ferðaþjónusta í Tyrklandi

Í Tyrklandi má finna allar tegundir ferðaþjónustu.  Gæðin eru eins; þau eru afar fjölbreytt.  Við fórum eina stóra ferð saman, sem tók um 12 tíma.  Ferðin var ágæt í heild sinni en nokkuð frá því sem sölumaðurinn sagði ,sem seldi ferðina.  Ég ætla ekki að eyða miklum tíma í að segja hvað fór úrskeiðis, en við náðum hinsvegar afar góðri mynd af þeim manni sem fór hvað mest í taugarnar á okkur í ferðinni.

Tyrknesk ferðaþjónustaÞað skal tekið fram að í Tyrklandi er það mikill ósiður að taka myndir af ókunnugu fólki og þá sérstalega konum (tala nú ekki um ef það eru nú eiginkonur einhvers í grendinni).  Svo Gugga var mjög hugrök þegar hún mundaði myndavélina og smelti af þessari mynd.

Þessi maður var skipstjóri um borði í skipi (sem reyndist lítill bátur) og sigldi með okkur mestallan daginn.  Hann sagðist vera hálfur Rússi og hálfur Tyrki og talaði flest tungumál (fannst honum).  Þegar hann var ekki að selja okkur eitthvað eða spila músík og klappa með, eða reykja...þá dottaði hann stundum þarna uppi á kælikistunni. Og þar hafði hann reyndar skrifað verðin á drykkjunum sínum mjög skýrt og fallega.  En við keyptum reyndar næstum ekkert af kallinum...og því lagði hann okkur í einelti í ferðinni...svona kurteisilegt einelti.

En Gugga náði fram hefndum. 


Æi ég veit ekki...

Ég þekki Teigskóg.  Og víst er hlíðin falleg með skóginum og ósnortin að sjá.  Hitt er svo annað mál hversu mikill skógur þetta er...hvað er skógur og hvað er kjarr ?  Flest trén eru nú ekki há.

Sannarlega væri "töff" að gera bara göng undir hálsinn en er ekki ekki einhver takmörk fyrir hvað á að leggja mikið fé í vegi eins og þennan, sem staðsettur er nánast í eyðibyggð.

Æi ég veit ekki....Teigsskógur eða  göng .... kannski er bara  tvöföldun Suðurlandsvegar það sem mig langar mest til að sjá.


mbl.is Höfða mál gegn umhverfisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dalirnir

Jæja ætlum að skreppa vestur í Dali í dag og vera fram á fimmtudag.  Orðið langt síðan maður heimsótti Dalina síðast.   Alltaf gott að komast í bláa húsið á Brunná.  Hver veit nema maður reyni að banka uppá hjá einhverjum og athugi hvort til sé kaffi.

Tyrknesk kattaþing

Eitt af því sem hvergi var hægt að lesa sér til á síðum ferðaskrifstofa né á Netinu var mikill fjöldi katta í lausagöngu.  Við vorum vöruð við þessu í rútunni af flugvellinum á leið okkar til Marmaris.  Talsvert er einnig af hundum á lausagangi, en þó mun minna.

Ekki bjuggumst við við slíkum fjölda katta, sem voru útum allar götur og inni á veitingatöðum, sérstaklega á kvöldin.  Þó ekki á hótelinu okkar.  Kettir þessir voru afar mismunandi á sig komnir; sumir grindhoraðir og nær hárlausir en aðrir fallegir og sællegir.  Flestir voru þeir gæfir en við vorum alvarlega aðvöruð að vera nokkuð að eiga við þá.  Dýrabit ættum við strax að tilkynna fararstjóra.

Köttur að bjarga sérOpinbera skýringin á þessu kattafári er að tyrknesk heimili séu lítil og það hafi aldrei tíðkast að halda gæludýr inni; hvorki hunda né ketti.  Kettirnir hafi því alltaf verið úti og fólk hjálpast til við að gefa þeim og hlúa að þeim.  Við urðum líka mörgum sinnum vör við að Tyrkirnir væru að gefa köttunum.  Það mynti einna helst á okkur Íslendingana að gefa blessuðum fuglunum.

Önnur skýring á fjöld þessara katta er hugsanlegur frágangur á sorpi , en honum var greinilega sumstaðar ábótavant.  Kettir voru í sorphrúgum um allan bæ og höfðu örugglega mikið að borða því ferðamenn leyfa talsverðu.

Almennt virtist vestrænum ferðamönnum frekar standa stuggur af þessum köttum en hitt, þó sá maður börn gefa köttum snakk og annað góðgæti.  Gæti best trúað að snakk væri aðalfæða sumra kattanna.


Skemmtilegar salernisferðir

Eitt af því sem maður upplifir nýtt og spennandi í Tyrklandi eru klósettferðir.  Tyrkir hegða sér nefnilega nokkuð öðruvísi en við þegar kemur að notkun salerna.

Í fyrsta lagi er harðbannað að setja klósettpappír í klósettið.   Klósettpappírinn setur maður í körfu við hliðina á klósettinu.  Það þýðir að maður þarf að horfast reglulega í augi við saurugan úrgang sinn þegar maður kemur honum fyrir í körfunni.   Ástæða þessa háttar er  lélegt skolpkerfij í bæjum og borgum, sem aldrei myndi bera  klósettpappírinn frá öllum hótelunum.

Í öðru lagi er sérstakt skolkerfi á klósettum.   Þegar maður er búinn að gera stórt þá skrúfar maður frá krana við hliðina á klósettinu og þá sprautast vatn á óhreina staðinn og skolar burtu óhreynindum.  Ekki er gott að skrúfa mikið frá í einu því þá vill vatnið sprautast á ýmsa staði utan sem innan klósettskálarinnar.

Íslendingar vilja nú telja sig frekar hreinláta að eðlisfari, en samt var enginn í hópnum sem mælti með sprautuhreinsuninni. 


Með DOLMUSH í Tyrklandi

dolmushStrætisvagnakerfið í Marmaris var skemmtilegt.  Strætisvagnarnir(DOLMUSH-arnir) eru litlir; ekki meira en 20 manns í sæti. Hinsvegar var oft stappað í þá fólki og ég veit eiginlega ekki hversu margir gátu troðið sér inn í einn vagn.  Nafnið Dolmush þýðir líka " troðið eða stappað". Ökumennirnir eiga vagnana sjálfir og sjá um rekstur þeirra.   Strangt eftirlit er með vögnunum og þurfa þeir að uppfylla nokkuð strangar kröfur um ásigkomulag og öryggi.

Vagnarnir eru ekki á tímaáætlun en  Þeir aka hinsvegar fyrirfram ákveðna leið.  Bíðskýli eru um allt þar sem hægt er að bíða í skugga eftir vagninum en einnig  er hægt að veifa þeim hvar sem er á leið þeirra til þess að fá far.  Þá stoppa þeir ef þeir eru ekki fullir.   Sami háttur er viðhafður inni í vagninum, maður segir bara stopp og þá stoppar vagninn og manni er hleypt út.  Flestir vagnarnir voru aðeins opnir að aftan og ef var troðið í þá komst maður ekki með fargjaldið til vagnstjórans.  Þá rétti maður einfaldlega peninginn næsta manni sem kom þeim áleiðis til vagnstjórans.  Stundum fékk maður meira segja til baka meða sama hætti.

Þetta er furðu þægileg ódýr og afslöppuð þjónusta og aldrei þurftum við að bíða lengi eftir vagni, enda fjöldi þeirra talsverður.   Tyrkirnir stóðu alltaf upp fyrir eldra fólki og konum.  Hinsvegar er ég ekki viss um að þeir hafi vitað hvað biðröð er.


Hótel Forum

Hotel ForumHótelið sem við vorum á var afar gott íbúðarhótel.  Íbúðirnar voru mjög stórar; okkar var þriggja herbergja með tveimur baðherbergjum og þrennum svölum.  Ég hugsa að íbúðin hafi verið um 80-90 fm. í allt.  Svo nóg var plássið.   Íslensku ferðaskrifstofurnar höfðu leigt allt hótelið svo það voru einungis Íslendingar á því, sem þýddi að maður heyrði bara íslensku á laugarbakkanum.  Tyrknesku þjónarnir skyldu líka smá íslensku og höfðu gaman af því að spreyta sig á henni.

Sundlaugargarðurinn var stór með tveimur laugum; Stórri djúpri laug og barnalaug.  Dýpt laugarinnar gerði það að verkum að hún var þægilega svöl langt fram eftir degi í hitanum.  Og af því að það voru bara Íslendingar á hótelinu þá viðgekkst sá siður að rífa sig upp snemma á morgnana og fara út með handklæði til að tryggja sér bekki.  Fáránlegt.   Ég hugsa að það hafi aldei verið legið á nema helming bekkjana í einu, svo í raun var engin þörf á að taka frá bekki.

Sundlaugargarðurinn á ForumHótelið er vel staðsett við aðalgötu bæjarins, með stóra matvöruverslun við hliðina og stutt á ströndina.   Við þurftum mikið af vatni og öðrum drykkjum svo eins gott að hafa búðina við hliðina á hótelinu.

Maturinn á hótilinu var mjög góður en í dýrari kantinum og með mjög hægri þjónustu.  Maður beið ekki minna en einn og hálfan tíma eftir matnum góða.  Svo við borðuðum aðeins tvisvar á hótelinu.


Tyrkland

Í Tyrklandi búa rúmlega 73 milljónir manna og er fólkfjölgun um 1,2 % á ári.  Langstærsta borgin er Istanbul með um 15.000.000 íbúa.  Næst kemur höfuðborgin Ankara með um 4500.000 íbúa. Tyrkir verða nokkuð eldri en ég bjóst við en meðalaldur kvenna er 74 ár og 69 ár hjá körlum.

Tyrkir eru ekki beint trúaðir þótt 98 % þjóðarinnar játi Islamska trú.  Um 50 % Tyrkja segjast ekki rækja trú sína eða rækja hana lítið.  Engu að síður byggja þeir moskur í öllum þorpum og bæjum.  Í landinu eru alls rúmlega 72.000 moskur; meira en í nokkru öður landi.

Landið er stórt eða 814.570 ferkílómetra.  Þótt landið sé hálent er það afar gróðursælt og frjósamt.  Ég bjóst við að sjá eyðumerkur og nakin fjöll en sá þess í stað gróðurvaxin fjöll og stöðuvötn.  Af vatni er miklu meira en nóg og þeir nota það óspart til að þvo bíla og stéttir.  100_2056

Læsi er almennt og vaxandi og er 94 % karlmanna læsir og 80 % kvenna.  Átta ára skólaskylda er í landinu fyrir bæði kyn og eftir það taka við framhaldskólar og háskólar.  Leikskólar þekkjast hinsvegar varla og er aðeins um 2 % barna sem fara á slíka skóla.  

Stjórnarskráin og lagabálkar taka mið af Evrópskum lögum.  Menning þeirra er mjög blönduð af vestrænni og einhverskonar austrænni menningu.  Tyrkir eru ekki af arabískum uppruna og finnst vera móðgun ef þeir er bendlaðir við það.  Tyrkir tóku upp Evrópskt letur 1923.


Marmaris á morgun

Þá er komið að því.  Fjölskyldan á Víðivöllum 14 heldur af stað í fyrramálið til Marmaris í Tyrklandi. Ferðalagið tekur um 11 tíma frá Selfossi.  Við ferðumst á vegum Úrval Útsýnar og verðum á Forum Hotel - Residence, sem okkur virðist vera ágætist íbúðarhótel.  Slóðin á hótelið hér.   Nokkurn ugg hefur setta að okkur vegna hitabylgju sem gengið hefur yfir Tyrkland og víðar.  En hún er nú í rénum og spáin gerir ráð fyrir max 31 gráðu alla næstu viku.

Undirbúningur hefur tekið allnokkurn tíma enda að mörgu að hyggja þegar 6 manna fjölskylda fer af stað.  Hver og einn hefur sínar þarfir og væntingar.  En nú er spennan að ná hámarki, búið að kaupa gríðarlegt magn af sólarvörn á ljóslitaða fjölsyldumeðlimi og síðustu flíkurnar að hverfa ofan í ferðatöskurnar.

Skil tölvuna eftir og reikna ekki með að blogga ytra. Sjáumst 13. júlí aftur.


Sumarfrí

Jæja þá styttist í sumarfríið.  Hætti snemma í dag og ætla ekki að vera með fast viðveru næstu vikurnar.  Á samt nokkur verkefni til dunda mér við á rigningadögum.  Búinn að taka ákvörðun um að smíða sólpall í fríinu og hef þegar teiknað hann upp.  Vonandi verður þetta eitthvað meira en teikning þegar sumarið er úti.

Nú styttist óðum í utanlandsferðina góðu með fjölskylduna til Marmaris í Tyrklandi.  Ein vika nákvæmlega þar til farið verður.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Bloggari

Eyjólfur Sturlaugsson
Dalamaður 
eyjolfur.sturlaugsson@gmail.com

 

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband