Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Fyrsta ferðin

Fyrsta ferðin Fyrsta fjölskylduferðin var farin í tilefni 50 ára afmælis mömmu.  Ferðin var og í boði hennar.  Áfangastaður var Grímsey.  Þótt fjölskylduferðir hafi verið uppfrá því fastur liður á hverju ári og farið víða; fleiri eyjar og jafnvel erlendis, verður að segjast að fyrsta ferðin var hvað eftirminnilegust.

Þessi mynd er frá siglingunni út í Grímsey.  Anna hlýjar sér í höndum afa síns og Keli, Birna og Kristín eru hvert og eitt í sínum heimi.

Það hefur alltaf vafist fyrir okkur Guggu afhverju Keli spennir svona greipar.  Við urðum hinsvegar enn meira undrandi þegar við uppgvötuðum að hann spennir svona greipar á tveimur öðrum myndum í albúminu sem ég er nú að skanna inn.   Hafi einhver sagt þegar myndin kom úr framköllun " ja hérna minn...hann Keli verður áreiðanlega prestur"  þá er þó orðið ljóst núna að á því hefur hann alls engan áhuga. 


1996 ár ferðalaga og breytinga

img197Hef opnað nýtt myndaalbúm og skemmti mér konunglega við að rifja upp minningar.  Nú er það sumarið 1996, sem var ansi, ansi viðburðarríkt sumar hjá fjölskyldunni.  Hún fór í fyrsta fjölskylduferðalagið þegar mamma bauð öllum í Grímsey í afmælisveislu.  Svo fór hún frá Grímsey með Norrænu í 4 vikur til Danmerkur og Noregs.  Rétt komin heim úr því ferðalagi flutti fjölskyldan frá Laugum í Siglufjörð.

Myndin sem hér fylgir er tekin í Grímsey í júní 1996.  Eins og sjá má eru flestir varðir Kríuárásum.  Stulli lætur það þó ógert enda hafði hann ekki enn orðið fyrir árás, hún kom stuttu seinna.  Sigga systir horfir dreyminn út í buskann. 

Smellið tvisvar á myndina til að fá fulla stærð. 


Útsýni

Ég hef velt því nokkuð fyrir mér hvort það skipti máli fyrir heilsu sálarinnar að hafa gott útsýni frá heimili sínu. Nú er útsýni afar mismunandi; alveg frá því að vera mikið og fallegt yfir í það að vera ekki annað en næsti garður og gata. Það er samt ekki þannig að allir sækist eftir útsýni en þó ljóst að margir gera það og flestir hafa ekkert á móti því. T.d. er ljóst að húsnæði með fallegu útsýni er eftirsóknarverðara en annað húsnæði. Slíkt má greinilega lesa út úr fasteignaviðskiptum.

Nú hef ég heyrt fullyrðingar fólks eins og; að gott útsýni auki orku, að það að búa við fallegt úsýni gefi fólki meiri ró og að fallegt útsýni fái fólk til að fara meira út. Ég hef líka heyrt að gott útsýni sé lúms tímaeyðsla sem enginn hafi grætt neitt á.

Húsið mitt á Siglufirði hafði stórkostlegt útsýni yfir tjörn og inn í fjörð. Á veturnar í mánaskini var þetta nánast ævintýralegt. Á Reykhólum er einnig dásamlegt útsýni og úr íbúðinni, sem við bjuggum í, ... var það stórkostlegt; Breiðafjörðurinn með allt sitt ljósaumrót, vetur jafnt sem sumar. Svo hér í Búðardal er furðu fallegt og gott útsýni, eitthvað sem hefur alveg farið framhjá mér í æsku. Sérstaklega eru alveg magnað samspil sólar og þoku á Hvammsfirðinum og endalaus litatilbrigði sólseturs.

Mér finnst gott útsýni gera mig þægilega latan og áhugalausan. Bara staður og stund. Endurtekið efni en aldrei eins. Kannski þögn eða kannski fugl.

Kaffi.


Æ nei

Vonandi verður Yahoo ekki sameinað Microsoft. Kínverjar hljómar skárri kostur í mín eyru.

Ég elska Flickr myndavefinn, sem er partur af Yahoo, og mundi helst vilja eiga vefinn sjálfur.


mbl.is Yahoo leiðir hækkanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Seinleg aðferð til að handtaka 700 manns

Merkilegt myndband frá mótmælunum í USA.  Eiginlega góð heimild um hversu erfitt er að fást við svona mótmæli.  Friðsamleg en fjölmenn.  Ekkert má fara úrskeiðis svo allt fari ekki í bál og brand með stigmagnandi vandræðum.  En þessari hreyfingu er að vaxa fiskur um hrygg og hver veit hvað gerist í USA.

 http://www.youtube.com/watch?v=a1tCYAEDl6g&feature=player_embedded#!


16.000

Vandamálið vex og vex. Nú er ég með 16.000 myndir í tölvunni minni og á flakkaranum. Stærsti hluti myndanna er til á báðum stöðum.

Þetta er að verða alveg ókleyfur veggur að halda utan um þetta, hvað þá að vita hvað maður á myndir af. Ferlega erfitt að henda líka...nema alveg ónýtum myndum.

Samt er ég alltaf að bæta við myndum, bæði með myndavél og skanna. Ætli ég endi ekki í meðferð einhversstaðar.


Kartöflufélagið

Af hverju er ekki til félagskapur (félag) eða samvinnufélag á afmörkuðum svæðum, sem hefur það að markmiði sínu að sýsla með kartöflur fyrir allan þennan herskara af einstaklinum sem rækta kartöflur sér til gagns og gamans ?

Það er fullt af fólki; bændum, sumarbústaðaeigendum, eldriborgurum og fólki í þéttbýli sem ræktar kartöflurnar sínar af ástríðu. Hverjir kannast ekki við eftirarandi:
a) Mundi rækta meiri kartöflur ef ég hefði geymslu.
b) Mundi rækta meiri kartöflur ef ég gæti selt umfram magn.
c) Mundi kynbæta kartöflur ef ég gæti geymt útsæðið mitt.
d) Ég mundi gjarnan vilja hafa aðgang að samfélagi sem talar og fræðir um kartöflurækt.

Já kartöfluklúbba um allt land takk fyrir. Ræktum saman.


En gaman

Það eru aldeilis skemmtilegar fréttir sem maður les af Reykhólavefnum þessa dagana. Sjá: http://reykholar.is/frettir/Fjolmenni_vid_tokur_a_franskri_mynd_i_Reykholasveit/ 

 

 


Góðir gestir

Í Búðardal er nú fjöldi nýrra og skemmtilegra gesta. Finnast þeir í tugum ef ekki hundruðum. Hér er á ferðinni blessuð rjúpan, sem nú á í hamskiptum um þessar mundir.

Afskaplega vingjarnlegt er kurrið sem heyrist inn um gluggann minn jafnt í vinnu sem heima. Helst að sjá að kettir amist við þessum fallegu og vinalegu gestum.


Komnar á netið

Jæja ég er loksins búinn að koma 77 myndum (eitt myndaalbúm) sem ég skannaði á Flickr myndavefinn minn. Er núna að merkja þær og skrifa minningarbrot um þær allar. Svo á ég eftir að flokka þær þar niður í möppur. Gömlu myndirnar sem ég á fyrir á Flickr eru allar merktar og flokkaðar en ég á eftir að skrifa minnigarbrot um þær flestar. Sumar þeirra eru reyndar svo gamlar að þær eru af ömmu minni ungri...þannig að ég þarf örugglega hjálp við slíkar minningar.

Svo ég vinn hörðum höndum við að skrá minningar í myndum og máli.   Mikil vinna en mikið mikið gaman.

Bein slóð á nýjustu (gömlu) myndirnar er:http://www.flickr.com/photos/guggaogloi/

PS.
Myndirnar sem þið sjáið eru ekki alveg sömu myndirnar og komu úr myndavélinni á sínum tíma.  Ég tek rauð augu í burtu, kroppa þær til, hita litina, breyti lýsingu og fl.   Laga lika stundum rispur og bletti. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Bloggari

Eyjólfur Sturlaugsson
Dalamaður 
eyjolfur.sturlaugsson@gmail.com

 

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 32
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband