Leita í fréttum mbl.is

Tölvugrafík

Í gærkveldi horfði maður fyrst á Júróvisionkeppninga og fylgdist með stigagjöfinni þar.  Grafísk framsetning var með því mótinu að nánast útilokað var að sjá á skjánum stöðuna á stigatöflunni.

Á kosningavöku Stöðvar 2 var eiginlega það sama uppi á teningnum; afar erfitt að sjá prósentutölur, þótt vel sæust súlurnar.  Á RÚV var þetta best.  Einnig mjög gott á mbl.is.

Fyrir nokkrum dögum sýndi RÚV frá fyrstu kosningavöku sinni.   Þar voru tölurnar handskrifaðar á pappaspjöld sem var smellt á stærri töflu, sem myndavélin tók mynd af.  Þótt gamaldags væri sýndist mér þó upplýsingarnar skila sér ágætlega.  Þetta leiðir hugann að því hvort tilraunir í grafískri framsetningu séu ekki í sumum tilvikum að missa algjörlega marks og betra sé að hafa þetta sem allra allra einfaldast.


Ingibjörg Sólrún Gísladóttir

Ég  fer að halda að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir eigi orðið raunhæfa möguleika á því að verða fyrsti kvennforsætisráðherra landsins.   Hver reiknaði með því fyrir tveimur mánuðum ?

Ég hef sagt það áður og segi það enn að aðeins Ingbjörg Sólrún og Geir Harde eru forsætisráðherraleg í mínum augum....en hingað til hafði ég veðjað á Geir....nú er þetta fyrst að verða spennandi.


Markaðurinn

Íslendingar virðast vera ansi klárir kaupsýslumenn.  Það er varla hægt að opna blað án þess að rekast á fréttir af fjárfestingum, yfirtökutilboðum og hagnaði.   Varla ein einasta frétt um tap, gjaldþrot eða misheppnaðar fjárfestingar.  Allt virðist meira eða minna ganga fullkomlega upp hjá öllum Íslendingum sem standa í þessu í miklum mæli.

Þá fjölgar stöðugt þeim sviðum sem Íslendingar fara í "útrás" á.  Engin starfssemi virðist vera þannig að ekki megi "græða" og "fjárfesta" í henni erlendis.  Það er helst að bændur og sjómenn haldi að sér höndum.

Þessi þróun er auðvitað ævintýri líkust og hreint ekki slæmt að lifa hana.


Hreinn meirihluti Sjálfstæðisflokksins

Kosningabaráttan er alltaf að verða meira og meira spennandi.  Nú vantar t.d Sjálfstæðisflokkinn aðeins örfá prósentustig til viðbótar til að ná hreinum meirihluta.   Það væru sannarlega mikil tíðindi og myndi allavega ekki kalla á stjórnarkreppu.  Flottir á uppleið Happy

Framsóknarflokkurinn er við það að þurkast út á höfuðborgarsvæðinu og verða landsbyggðarflokkur.  Talsvert fréttnæmt það og þar á bæ segja flokksmenn að þeir fari alls ekki í stjórn með örfáa þingmenn.  Taparar Frown

Frjálslyndiflokkurinn er inni og úti til skiptis í öllum könnunum og kýs að hafa allar auglýsingar með sem mest af texta og helst ekkert af myndum.  Afar áhugaverð kosningarherferð á 21. öldinni. Taparar Frown

Íslandshreyfingin er með langflottustu heimasíðuna ....og Ómar.  Allavega ekki mikið meir. Taparar Frown

Vistri græn hafa náð miklu meira fylgi til sín hlutfallslega en nokkur annar flokkur.  Fullt af fólki sem aldrei bjóst við að fara á þing er farið að velta fyrir sér að segja upp núverandi vinnu.  Flottir á uppleið Happy

Blessuð Samfylgingin er á uppleið er tapar samt miklu frá síðustu kosningum.  Flokkurinn er samt með eitt besta forsætisráðherraefnið.  Taparar Frown


Forsetinn hefur vinnu

Það er svo skrýtið að þegar maður les um að forsetinn sé þreyttur, þá vaknar maður upp við þá furðulegu staðreynd að þetta er vinnandi maður.

Einhvern veginn sér maður ekki forsetann fyrir sér á kafi í vinnu.  En trúlega er hann það og að ég best veit er forsætisiembættið fáliðað.

Kannski er þetta þörf áminning á að skoða vinnuskilyrði þjóðhöfðingja okkar.


mbl.is Forsetinn við góða heilsu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hún Björk okkar

Hún Björk okkar er heimsfræg.  Sem tónlistarmaður nýtur hún mikillar virðingar og þegar hún brá sér í kvikmyndaleik, lagði hún heiminn að fótum sér á því sviðinu.  Mjög hæfileikaríkur listamaður.

Hún er með auðugustu núlifandi Íslendingum og enginn landi vor hefur orðið jafnþekktur í allir Íslandssögunni.  Hinsvegar fer ótrúlega lítið fyrir henni hér heima á Fróni og við landar hennar eru lítt upprifnir af frægð hennar.   Ég held að hún hafi auglýst land og þjóð meira en flestir aðrir og verið landi og þjóð ákaflega trú í "frægð" sinni.


mbl.is Björk í ítarlegu viðtali í The New York Times
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylkingin í hátíðarskapi

Samfylkingin í Suðurkjördæmi býður til fjölskylduskemmtunar á alþjóðlegum baráttudegi launafólks við Inghól - kosningamiðstöð okkar á Selfossi - kl. 15:00 1. maí
- Jógvan
- Birgitta Haukdal
- Ingibjörg Sólrún Gisladóttir
- Magni og Á móti Sól
- Hljómsveitin Undirheimar

Margrét Frímannsdóttir er kynnir skemmtunarinnar.

Hoppukastalar og hringekjur frá kl. 14:00

Andlitsmálum

Frambjóðendur grilla fyrir alla.


Bónus

Þegar ég bjó á Siglufirði var næsta Bónusverslun á Akureyri.  það tók fulla tvo tíma hvora leið að aka þangað um vetur en fór niður í einn og hálfan tíma að sumri.   Því var það nánast því heilög skylda að koma við Bónus ef maður átti leið um Akureyri.  Stundum tókum við Gugga sitthvora körfuna og troðfylltum þær.  Síðan var pokum komið fyrir út um allan bíl.  Við ræddum það gjarnan hversu bagalegt það væri að Siglfirðingar gætu ekki verslað í Bónus dagsdaglega, því ómæld hlunnindi væru fólgin í því.

Þegar við fluttum á Selfoss gátum við tekið gleði okkar á ný því nú var hægt að fara í Bónus daglega eða oftar ef okkur langaði mikið til þess.  En eftir að vera búin að versla í Bónus í tæp fimm ár er komin ægileg Bónusþreyta í okkur og nennum við varla að versla þarna lengur. Verslunin er alltaf hálf full og sami innkaupahringurinn orðinn þreytandi.   En verðið er svo miklu lægra en í öðrum matvöruverslunum á Selfossi að við höldum þetta enn út. 

Nú viljum við Gugga fá nýja Bónusverslun á Selfoss, sem yrði margfallt stærri og skemmtilegri en núverandi verslun.   Svona breytast nú viðmiðin.....


Enn um BUGL

Mér er alveg nákvæmlega sama hver stendur að því að bæta ástand það sem nú er á BUGL.  Það þarf bara að hefjast handa og útrýma 18 mánaða biðlista og tryggja neyðarvistun, og ráðgjöf.

Ég hef áður bloggað um BUGL og hvernig mér ofbýður gjörsamlega ástandið og sú niðurlæging sem geðfatlaðir unglingar verða fyrir og aðstandendur þeirra í annars góðu samfélagi okkar.


mbl.is Samfylkingin vill tryggja börnum og öldruðum á biðlistum örugga þjónustu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mér finnst gaman af skoðanakönnunum

Mér finnst gaman af skoðanakönnunum um fylgi stjórnmálaflokka.  Ég bíð spenntur eftir hverri nýrri könnun.  Þetta er svona eins og að fylgjast með íþróttamóti; HM í fótbolta í heilan mánuð eða eitthvað í þá áttina, þar sem maður heldur með einhverju ákveðnu liði.   Stundum er Sjálfstæðiðsflokkurinn með yfir 40 % fylgi og stundum undir.  Afar tvísýn og skemmtileg keppni milli Samfylkingarinnar og Vinstri grænna um hvor verði stæri stjórnmálaflokkur eftir næstu kosningar.  Frjálslyndir berjast fyrir tilveru sinni; sem minnsti flokkurinn.  Og svo má ekki gleyma Framsóknarflokknum í hans baráttu við að halda velli.  Og keppnin er hörð, spennandi og tvísýn.

Það leiðnilega er að ekki geta allir unnið; en það skemmtilega er að öllum flokkum finnst að þeir hafi unnið að afloknum kosningum.

Því miður hef ég ekki fundið neinn stað á Netinu þar sem allar kannanir eru á sama stað.  Það væri samt afar skemmtilegt að geta skoðað og borið saman slíkar kannanir. Svona eins og að spá í úrslit á milli leikja.

 


mbl.is Sjálfstæðisflokkur með 40% fylgi samkvæmt könnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Bloggari

Eyjólfur Sturlaugsson
Dalamaður 
eyjolfur.sturlaugsson@gmail.com

 

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband