Leita í fréttum mbl.is

Enn og aftur kominn heim

Þetta er að verða meira ferðasumarið.  Ég var að koma aftur í Búðardal í dag eftir veru fjölskyldunnar á Landsmóti Ungmennafélaganna í Borgarnesi.  Rikki keppti þar í fótbolta með liði UDN.  Ekki náði liðið nú að leika til verðlauna en stóð sig með prýði.

Þarna var margt um manninn og rakst ég á nokkra sem langt er síðan ég hef hitt.  En veðrið, félagsskapurinn og dagskráin í Borgarnesi gerði það að verkum að helgin var hin skemmtilegasta.


Stóryrt blogg

Rakst á þetta stóryrta blogg um fólk sem tók vitlaus lán.

http://www.badabing.is/2010/07/megi_myntkorfufolki_brenna_i_h.html


Pósturinn á dyramottunni

Pósturinn er með auglýsingaherferð þessa dagana þar sem reynt er að sannfæra fólk um að best sé að fá að geyma póstinn á pósthúsi þá daga sem maður er í burtu í ferðalagi.  Ekki sé gott að geyma hann á dyramottunni.  Öryggisins vegna.

Hvernig sem ég hugsa þetta skil ég ekki hverju ég er bættari með að geyma póstinn á pósthúsinu.

Afhverju má hann ekki liggja á dyramottunni í læstu húsi ? Ekki skemmist hann eða fer neitt.  Og það þarf ansi mikinn póst til að hann hlaðist upp fyrir lúguna.  Nú ef það kviknar í, eða það er brotist inn eða vatn flæðir um allt....ætli ég hafi ekki meiri áhyggjur af öðrum hlutum en póstinum mínum.

 


Á Selfossi

Höfum verið á Selfossi undafarna daga og verðum eitthvað áfram.  Rikki er hinsvegar á ferðalagi á Vestfjörðum með vinum sínu; var svo heppinn að vera boðinn með. 

Við erum eitthvað að reyna svona að laga til í garðinum, smíða viðbót við pallinn og laga til í geymslum.

Erpur er hér líka að ná sér eftir aðgerðina sem var gerð á honum eftir bílslsysið, sem hann lenti í þegar við vorum úti á Tenerife.


Berjamó - berjamó

Þá fer að hylla undir að berin séu að verða æt.  Alveg hægt að vera í smakkinu á krækiberjunum nú þegar og það lítur út fyrir fullt fullt af berjum þetta árið.   Garðaberin verða snemma í ár, líkt og í fyrra ef marka má stöðuna í garðinum mínum á Selfossi.

Ég rakst í morgun á heimasíðu sem algjörlega er ætluð berjafíklum eins og mér og mömmu.  www.berjavinir.com   Á þessari síðu gætir ýmsra grasa (berja) og skulu þeir sem hana gerðu hafa miklar þakkir fyrir.

Út um mó

Út um mó, inn í skóg,
upp í hlíð í grænni tó.
Þar sem litlu berin lyngi vaxa á,
tína, tína, tína má.

Tína þá berjablá,
börn í lautu til og frá.
Þar sem litlu berin lyngi vaxa á,
tína, tína, tína má.


Skák

Ég hóf í vor taflmennsku á nýjan leik eftir um 14 ára hlé.   Ég tefli núna á Netinu á skemmtilegu vefsvæði www.gameknot.com   Það kostar ekkert ef maður er sáttur við að hafa nokkuð takmörkuð réttindi.   Ég hef allavega allt til alls þarna og mér líkar svæðið vel.  Mæli hiklaust með því.

Ég tefli bréfskákir, þannig að ég leik bara einn leik í einu og sendi hann.  Bréfskákaformið hentar mér mun betur heldur að tefla í "beinni" á netinu á tíma.  


Gott að búa á tveimur stöðum

Það er oftar hlýrra veður á Selfossi heldur en í Búðardal.   Munar þar miklu um öll trén á Selfossi.   Að því leitinu er mjög gott að búa á tveimur stöðum.  Ég hef verið síðustu daga á Selfossi og notið einmuna veðubliðu.  Opinber hiti hér var 21 gráða.

Ef það fer að halla í meiri austanátt...þá er bara að fara í Búðardal, en þar er austanáttin besta áttin.

 


Myndir frá Tenerife komnar á Flickr síðuna mína

Þá er ég loksins búinn að velja rúmlega 80 myndir og setja á Flickr síðuna mína.  Myndirnar eru flestar teknar af mér, en það eru nokkrar frá Rikka líka. Þá eru ein og ein mynd frá Helgu systir og Birnu Björtu.

Hér er slóðin í albúmið og þá er hægt að skoða hverja mynd fyrir sig með skýringum með því að fletta myndunum albúminu. 

Hér er svo slóðin beint í sjálfvirka myndasýningu.


Mér tókst það !

Á laugardagsmorguninn var kl. 8.00 lögðum við pabbi upp í mikla og erfiða gönguferð.  Við vorum í 60 manna hópi sem ætlaði að ganga á 24 tinda á 24 tímum, þ.e fara fjallahringinn í kringum Glerárdalinn fyrir ofan Akureyri. Slóðin hér  Gönguferðin átti semsagt að standa í sólarhring og að velli átti að leggja 24 fjöll.

Nú þetta tókst hjá okkur pabba; vorum reyndar 24,5 klukkustundir að fara þetta, það þykir bara nokkuð góður tími.  Þetta var hinsvegar alveg ógeðslega erfið fjallganga.  Efast um að það bjóðist miklu erfiðari göngur og margir gáfust upp á leiðinni.  Alveg ótrúlegt að pabbi skuli vera búinn að fara þetta einu sinni áður( fyrir tveimur árum)  og hafi langað til að fara aftur.  Hann er sá elsti hingað til sem hefur farið hringinn (70 ára)  - hreint ótrúlegt afrek, sem ég spái að seint verði slegið.

Ég var svo þreyttur eftir þetta að mig verkjaði um allan líkamann og er ekki nærri búinn að ná mér. Núna á mánudagskveldi er ég t.d. ennþá á verkjalyfjum. 

En það hafðist Smile


Komin vestur í Dali

Þá erum við komin vestur í Dali eftir að harfa gist eina nótt á Selfossi.  Ferðalagið sem allir voru búnir að hlakka til í marga mánuði er nú komið á enda.

Nú tekur við úrvinnsla mynda og undirbúningur næstu ferðar, sem er norður í Eyjafjörð á föstudaginn.  Þarf að lofta tjaldvagninn og fleira.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Bloggari

Eyjólfur Sturlaugsson
Dalamaður 
eyjolfur.sturlaugsson@gmail.com

 

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband