Leita í fréttum mbl.is

Bíllinn kominn í lag

 Mér tókst að rífa gat á pönnuna í smá ferðalagi sem við ætluðum í kringum Strandir.  Komust ekki lengra en að Ketilstöðum og til baka að Höfn...þá kom bilunin í ljós.  Það var verið að gera við hann í dag og kostnaðurinn ja...bara 100.000 kr., sem er jú mikið.

En ef ég hefði brætt úr bílnum, þ.e ekið lengi án olíu á vélinni...þá væri matið öðruvísi og í því ljósi eru þetta litlir peningar.


Blórabögglahugsun - gerir hún litlar þjóðir stórar ?

Ég held að í góðærinu svokallaða hafi Íslendingar virkilega haldið um stund að þeir væri sérstaklega flottir og flínkir.  Kaupæðið og lántökugleðin reið ekki við einteyming.  Stór hluti almennings (alls ekki allir og sannarlega er til fátækt á Íslandi)  lét eins og fífl og súpa af því seiðið núna.     Mjög skemmtilegt innlegg um þetta og fleira er að finna á þessari slóð: http://www.smugan.is/pistlar/penninn/armann-jakobsson/nr/3795

Það versta við þetta er að enn eru menn að kenna öðrum um en sjálfum sér; að Íslendingarnir séu fórnarlömb.  Nú eru það útrásarvíkingar og Alþjóðagjaldeyrirssjóðurinn sem eru að rústa öllu.  Íslendingar þurfi bara að losa sig við öll erlend áhrif, hætta við ESB umsókn og sjá um þetta sjálfir. 

Íslendingar vilja  sannarlega verða mikilmenni...en í hverju ?


Vondur vegur alla mína ævi?

Þessir vegir hafa alltaf verið slæmir.  Þótt unnið sé að úrbótum er vandamálið til staðar. Á hverjum tíma hafa verið verri vegir á þessu svæði en á flestum öðrum stöðum. 

Þetta er eins og fordæming; einu sinni með vonda vegi = alltaf með vonda vegi.

Fæddur við vondar vegasamgöngur = í mannsaldur skaltu búa við þær.

Ég hef aldrei munað eftir þessu fallega og skemmtilega svæði nema með slæma vegi.


mbl.is Krefjast úrbóta í vegamálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppskeru-smakk

Af einhverjum furðulegum ástæðum hef ég verið svo sallarólegur að ég hef ekki litið undir kartöflugrösin fyrr en nú í dag.  Hefði greinilega getað byrjað miklu fyrr að borða úr garðinum því mínar íslensku rauðar eru stórar og gómsætar.  En fáar undir - trúlega vegna þurkana í sumar.

Það eru bara orðnir fáir til að borða þessar elskur með mér; bara Rikki.  Gugga má ekki borða kartöflur lengur og hin börnin 300 km í burtu.


Morð á Íslandi

Nú er þjóðin að fylgjast með morðrannsókn.  Manni kemur nú í hug hversu fá morð eru í raun framin á Íslandi þegar allt kemur til alls. 

Mikið er það nú gott


Fyrsta barnið flutt af heiman

Þá er hún Birna Björt flutt af heiman en hún og Bjarni Dagur eru nú búsett í Hafnarfirði.  Fluttningurinn fór fram á sunnudaginn var og ég gleymdi að taka mynd af viðburðinum.  Stór stund fyrir þau að búa loksins saman ein sér.   Þau eru bara með þessa fínu íbúð á leigu og furðu mikið hafa þau náð að stækka innbú sitt á þessu ári frá því að þau byrjuðu að búa á Víðivöllunum með bræðrunum fyrir ári síðan.

Birna og Bjarni; innilega til hamingju með fyrstu íbúðina !

 


Ylliber

Hér í Búðardal eru tveir Ylliberjarunnar á lóðinni við húsið sem ég leigi.  Báðir blómstruðu þeir fYlliberallega í vor og nú bera þeir helling af berjum.  Berin eru lítil, eldrauð og sitja í fallegum píramídalaga brúskum fremst á hverri grein.  Mjög fallegt.

Ylliber eru nothæf í sultur þótt eitruð séu (eins og reyndar plantan öll). Eftir suðu er þau skaðlaus.  Ég ákvað því að gera tilraun að sulta þessi ber, enda hef ég aldrei hvorki séð né notað þau.  Það er ekki um auðugan garð að gresja varðandi leiðbeiningar enda berin greinilega lítið notuð.  Þó fundust leiðbeiningar og uppskriftir.  

Bragðið af hlaupinu er sérstakt og í rammara lagi, ef berin eru notiðu ein sér.  Ákvað að setja aðeins af rifsberjum út í og við það varð úr alveg fyrirtaks hlaup. 

 Svo vona ég bara að upplýsingar um afeitrunina við suðu séu réttar.


Og trén vaxa bara og vaxa út um allt

Það er orðið þannig að þegar maður ekur um Vestur-, Norður- eða Suðurland þá rekur maður augun sífellt í fleiri og fleiri svæði þar sem tré eru að skjóta upp kollinum.  T.d eru stór svæði í Norðurádalnum, vestanmegin við Öxarfjarðarheiðina og norðan megin við Bröttubrekku þakin trjám sem virðast bara geta vaxið allstaðar. Tíðarfarið undanfarin ár hefur líka verið þannig að svo virðist sem ársvöxtur slái nýtt met á hverju ári.

Mér finnst þetta afar ánægjuleg þróun og hlakka til á næstu árum að aka langar leiðir umluktur skógi.

 


Flott hjá Jóni Gnarr

Jón Gnarr Kristinsson stefnir í það að verða fínn borgarstjóri.  Skemmtilegt hvernig hann notar Netið til þess að velta vöngum með fólki.  Gríðarlega margar hugmyndir fá skyndilega vængi og flögra um og ein og ein verður að veruleika.  Væri virkilega gott að fá einhverja nýja vídd líka inn í landsmálapólitíkina.
mbl.is Flugeldasýningin bruðl?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í kapphlaupi við birkifetan

eo_Rheumaptera_hastata-0506 Birkifeti - Rheumaptera hastata

 

Birkiskógar og bláberjalyngsmóar eru kjörlendi birkifeta. Hann lifir fyrst og fremst á birki (Betula pubescens) og bláberjalyngi (Vaccinium). Flugtími birkifeta er fyrri hluta sumars, einkum í júní og fram í júlí, en fiðrildi hafa fundist á tímabilinu frá miðjum maí og allt til fyrstu daga í ágúst. Það heyrir þó til undantekninga að þau sjáist svo seint. Lirfurnar vaxa upp í samanspunnum laufblöðum frá seinni hluta júní og ná fullum vexti er líður á ágúst. Þær púpa sig á jörðinni, gjarnan innan um fallin laufblöð. Birkifeti brúar veturinn á púpustigi.

Mörgum finnst birkifeti með fallegri fiðrildum hér á landi og með stærri fetum. Vængirnir eru dökkir, svarbrúnir með flóknu mynstri af ljósum saumum. Bolurinn er líka mjög dökkur. Mynstrið er breytilegt og saumarnir misljósir, stundum nær hvítir en stundum mun dekkri og lítt áberandi á dökkum vængjunum. Lirfurnar eru nær svartar, nokkuð gljáandi, með ljósari blettum á hliðunum.

Birkifeti er nokkuð fast bundinn kjörlendi sínu og sést sjaldnast á flögri fjarri því. Honum reiðir misvel af eftir árum og þegar vel árar verður fjöldinn gríðarlega mikill. Grunur leikur á að birkifeta fari fjölgandi með hlýnandi loftlagi. Lirfurnar verða mikil átvögl þegar þær taka að ná fullum vexti um og upp úr miðjum ágúst ef vel árar. Þar sem mikið er af þeim sést greinilega merki á gróðri. Árið 2008 byrjuðu að berast fréttir að bláberjalyngsbrekkur í Dölum, á Snæfellnesi og sumstaðar á Vestfjörðum væru orðnar brúna yfirlitum. Græni vefur laufblaðanna var gjörsamlega uppétinn og einungis visinn og orpinn æðavefurinn stóð eftir á lyngsprotunum. Þetta endurtók sig á sömu slóðum árið eftir, þ.e. 2009 og stefnir nú 2010 í fjórða árið í röð þar sem Birkifetin klárar bláberjalautir í Dölum. Öll þessi sumur eiga það sameiginlegt að hafa verið hlý og þurrviðrasöm.

Nú er ég í kapphlaupi við birkifetan. Lifrunar eru í óðaönn að borða lyng og hafa þegar lagt undir sig feykistór svæði í Dölum. Ég hinsvegar þykist snjall  með því að vera ofar í hlíðunum og þar ásamt einstaka öðrum svæðum er ennþá hægt að finna þessi líka fínu og yndislegu aðalbláber. Ég verð að viðurkenna að ég berjavinurinn er ekki hrifinn af þessu fiðrildi og tel mig hér vera að finna afar hvimleiðan galla á hlýjum og sólríkum sumrum.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Bloggari

Eyjólfur Sturlaugsson
Dalamaður 
eyjolfur.sturlaugsson@gmail.com

 

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband