Miðvikudagur, 8. febrúar 2012
Hættur á mbl blogginu
Kæru vinir, ættingjar og lesendur.
Nú er ég hættur að blogga á þessu svæði. Þetta bloggumsjónarumhverfi hefur dregist langt aftur úr öðrum kerfum og ekki að sjá að hér verði gerðar miklar endurbætur.
Er kominn með eigin vefsvæði þar sem ég mun blogga áfram og koma til með að gera ýmislegt fleira. M.a mun ég blogga um stafræna ljósmyndun og flytja fréttir úr Dölum. Nýja síðan mín er á slóðinni:
Bara smella á slóðina og þú ert kominn í heimsókn á nýja svæðið
Þakka öllum sem hingað hér hafa verið reglulegir gestir og vona að þeir fylgi mér á nýtt svæði.
Eyjólfur
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 21:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 6. febrúar 2012
Í seinni heimstyrjöldinni
Þessi mynd er trúlega úr Tjaldanesi af litlum Stulla snáða í barnavagni og til hliðar er stolt móðir. Þegar þessi mynd er tekin geysar seinni heimstyrjöldin.
Miðvikudagur, 1. febrúar 2012
Tveir á túni
Já þeir eru flottir þessir tveir drengir, sem úti á túni standa og horfa í átt að ljósmyndaranum.
Nokkuð sparilegir ef að er gáð; í vesti og með bindi. En einnig í stigvélum, sem þótti góður fótabúnaður og hugsanlega ekki allra eign.
Bræðurnir Stulli og Stebbi eru hér sennilega í Hvammsdal...eða hvað ? Og hvað skyldu þeir vera gamlir ...myndin er allavega tekin fyrir 1950.
Alveg hreint frábær mynd !
Mánudagur, 30. janúar 2012
Amma og afi
Sunnudagur, 29. janúar 2012
Vinsælasti potturinn á landinu ...
Þótt ég sé oftast einn í sundi þegar ég skrepp í sundlaugina á Laugum gleymi ég því gjarnan að þúsundir 14 ára gamalla barna heimsækja laugina. Og fara í heita pottinn.
Þessi mynd er tekin af netinu og er af einum frægasta heita potti landsins. Heita pottinum á Laugum í Sælingsdal. Hún er af tugum nemenda að reyna að setja met. Og þið megið gjarnan spreyta ykkur í að telja. Hvað eru margir í pottinum ?
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 21:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 26. janúar 2012
Að endurfæðast sem skuldabréfamarkaður
Jón Ormur Halldórsson skrifar:
"Einn ráðgjafa Clintons forseta sagðist áhugalaus um að eyða næstu jarðvist sinni sem forseti Bandaríkjanna. Hann vildi frekar endurfæðast sem skuldabréfamarkaður. Slíkir hefðu valdið, ekki Hvíta húsið. Nú sjá menn máttvana leiðtoga hinna öflugustu ríkja slaga af einum neyðarfundi á annan og bíða þess í angist að markaðir með skuldabréf opni og felli sína dóma. Sarkozy forseti er sagður viss um að stemmingin á skuldabréfamörkuðum muni ráða því hver sigrar þegar fjörutíu milljónir franskra kjósenda velja þjóð sinni leiðtoga í vor. Stefna forsetans í efnahagsmálum hefur líka mótast af þeirri trú hans að einkunnagjöf matsfyrirtækja muni ráða meiru en hugsjónir frönsku þjóðarinnar. Svo er þá komið fyrir fimmta öflugasta ríki heimsins og vöggu uppreisnar hins almenna manns."
Sunnudagur, 22. janúar 2012
Fastur á netinu
Ég hef notað Flickr (www.flickr.com) síðustu árin, sem geymslu og sýningarstað fyrir myndirnar mínar. Vefurinn er góður ég hef svo sem ekki haft áform um að hætta að geyma þar myndir.
En svo hef einnig verið með að ganni reikning hjá Nikon (aðallega að því að ég á Nikon myndavél), sem rekur myndavefinn my picturetown (www.mypicturetown.com) . Sá vefur var ekki merkilegur fyrir svona þremur árum en hefur tekið miklum framförum og í dag er hann að verða ansi góður. Það sem ég kann best við vefinn er hversu auðvelt er að halda skipulagi á myndum eftir hefðbundu möppukerfi. Flickr býður nefnilega ekki upp á þetta, nema takmarkað. Þá er hann allur einfaldari í notkun - maður þarf að hafa verið dáldið lengi á Flickr til að finna til öryggiskenndar.
Svo allt í einu hvarflaði að mér að skipta- er líka ódýrara sá ég. En þegar maður er kominn með 700 myndir á flickr er hreint ekki auðvelt að fara að skipta - eiginlega bara ómögulegt. Svo mér sýnist maður vera fastur þarna í áskrift.
Þetta var ég bara að fatta núna
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 18:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 19. janúar 2012
Allir notuðu Kodak
Þetta merki hefur fylgt manni afar lengi. Þar sem ég ólst upp var ekki hægt að fá aðra tegund af filmu en frá Kodak. Ég var orðinn æði stálpaður þegar ég sá aðrar tegundir.
En fyrirtækið átti erfitt með að bregðast við stafrænu bylgjunni. Ég hélt þó að það væri að hafast á tímabili. Þeir framleiddu prýðilegar stafrænar myndavélar í kringum 2004. Ég eignaðist eina slíka sem reyndist mér ákaflega vel.
Á vissan hátt sér maður eftir þessum fallna risa úr tilveru sinni.
Kodak er gjaldþrota | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 16. janúar 2012
Það má yrkja á ýmsan hátt
Snjórinn
Hann kemur með kulda
um vetur og á okkur setur
og mun sjaldan annað skulda.
um daga og nætur hann
um okkur allstaðar frostið hvetur.
Hrímið gnístir okkar sálartetur
og kuldinn upp það lepur,dugar þá
lítið annað en niður fjall sér að renna
kuldabola burt og hans vá.
Skíðin munu brekkur brenna
og hitinn burtu bola setur.
snjórinn um allt mun okkur kenna
að á ská er hægt sér að renna.
Eftir Kristján og Tómas
Fimmtudagur, 12. janúar 2012
Kvenlegri heimur ?
Margt það merkilegasta fer undarlega hljótt. Þrátt fyrir allt, og öfugt við það sem margir halda, býr mannfólkið nú á tímum líklega við meiri frið og minna ofbeldi en nokkru sinni fyrr í sögu þess. Ofbeldi innan flestra samfélaga hefur sannanlega minnkað. Stríðum á milli þeirra hefur greinilega fækkað. Og stríðin nú höggva ekki sem fyrr í þjóðir.
Þessu trúa líklega ekki margir sem fylgjast með fréttum. En tölfræðin á bak við þetta er þekkt, sumpart raunar umdeild, en þó í heildina sannfærandi. Þetta hefur kanadíski fræðimaðurinn Steven Pinker nýlega rætt í frægri bók.
Enginn veit
Rök Pinkers um ástæðurnar fyrir þessari heimssögulegu þróun eru minna sannfærandi en tölfræðin sem hann notar. Breski fræðimaðurinn John Gray er einn þeirra sem gagnrýnir ályktanir Pinkers en Gray er heimsþekktur fyrir óþægilega skýr rök um að maðurinn sjálfur geti lítið skánað.
Það þýðir þó ekki að mannleg samfélög geti ekki batnað. Það hafa þau ljóslega víðast gert. Stóra myndin er að ofbeldi í heiminum er miklu minna en áður þótt menn skilji ekki vel ástæðurnar fyrir því.
Kvenlegri heimur
Ef til vill má nota samlíkingu sem flestum er töm og segja að heimurinn hafi orðið kvenlegri. Þróun frá ofbeldi hófst hins vegar fyrr en barátta nútímans fyrir jafnrétti kynjanna. Minnkandi ofbeldi skýrist því ekki með kvenfrelsi heldur gæti samhengið verið öfugt. Hættir sem oft eru kvenkenndir og eiga hér við eru til dæmis þeir að sækja frekar í samtöl en slagsmál og frekar í mýkt en hörku. Líka að vilja frekar skilja fólk og vinna með því en að sýna því vald sitt og stöðu. Auðvelt er að sjá þýðingu þessara hluta fyrir stöðu og árangur þjóða í alþjóðlegu samfélagi.
Slagsmál og spuni
Yfirgangssemi er síður líkleg til árangurs í alþjóðakerfinu en áður. Rembingur í nafni þjóða hefur líka orðið að aðhlátursefni frekar en uppsprettu virðingar. Fæstum þykir núorðið flottur sá háttur víkinga að slást á daginn og grobba á kvöldin. Bjartur í Sumarhúsum minnir líka frekar á Norður-Kóreu en Norðurlönd. Frá slíkum hugmyndum og háttum eru þjóðir að hverfa.
Fyrir stærri ríki þýðir þetta að hervald, kúgun, hótanir og mútur reynast ekki eins vel og áður. Fyrir minni þjóðir þýðir þetta að ekki er nóg að tylla sér á tá, hafa hátt og grobba um eigið ágæti. Þróun frá ofbeldi og mannalátum til hins kvenlega er enn meira fagnaðarefni litlum þjóðum en stórum.
Mjúkt vald
Sá hefur vald sem getur fengið aðra til að lúta vilja sínum. Hart vald er getan til að skipa fyrir. Mjúkt vald er getan til að ná því sama án þess að beita þvingun, hótun eða greiðslu sagði bandaríski fræðimaðurinn Joseph Nye en hann var fyrstur manna til að nota hugtakið með kerfisbundnum hætti í greiningu á alþjóðamálum. Sá hefur mest mjúkt vald sem fær aðra til að vilja það sem hann vill að þeir vilji.
Rök eða rígur
Núorðið er þorri samskipta ríkja án árekstra og öllum til akks. Sífellt fleiri viðfangsefni ríkja eru alþjóðlegs eðlis. Þjóðir ná líka æ síður árangri með því að streitast upp á sitt eindæmi. Jafnvel sterkustu ríki sjá sér hag í víðtækri samvinnu. Um leið eru áhrif í alþjóðamálum sífellt minna sprottin af hörðu valdi þeirra sterkustu. Í samstarfi þjóða ræður oft mýkra vald frá degi til dags. Uppsprettu áhrifa er æ oftar að finna í siðferði, hugmyndum, lífsmynstri, kunnáttu og í færni í samstarfi. Áhrifin er sífellt sjaldnar að finna í skriðdrekum og sprengjum eða í rembingi og ríg.
Hörð og veik
Sovétríkin áttu yfirþyrmandi herstyrk en lítið af mjúku valdi. Bandaríkin styrktust í heiminum með því að sýna sitt opna eðli og velja son afrísks múslima sem forseta. Þúsund nýjar herþotur hefðu skipt minna máli. ESB er veikt af vopnum en sterkt af mjúku valdi sem það sækir í mikla menningu álfunnar og í virðingu sína fyrir mannréttindum og vilja til uppbyggilegs samstarfs. Það mun miklu ráða um þróun alþjóðamála hvort Kínverjar ná að þróa mjúkt vald til jafns við efnahagsmátt sinn og herstyrk. Enn hafa þeir lítið af sigrandi mýkt.
Opin, mjúk og sterk
Hin sterka mýkt sprettur úr jarðvegi opinna samfélaga, frjórrar menningar, kunnáttusemi, vitsmuna og siðferðiskenndar. Þetta vald sprettur af orðspori þess sem gerir hluti með aðlaðandi, sönnum og trúverðugum hætti. Eins og til dæmis Svíar gera í jafnréttismálum, Norðmenn í friðargæslu, Þjóðverjar með víðtækum samstarfsvilja, Frakkar og Bretar með framlagi til heimsmenningar, Svisslendingar með ábyggilegheitum og Bandaríkin með Hollywood og Harvard.
Þræðir
Slíkt vald verður til með þráðum sem liggja frá milljónum stofnana og fyrirtækja af öllu tagi til ótölulegs fjölda af alls kyns miðstöðvum þar sem hlutir koma saman. Þar skiptir kunnáttusemi tíðum meira máli en peningar, skynsemi iðulega meira máli en skriðdrekaeign og vilji til samstarfs oftast meira máli en rembingur. Þetta er flóknari heimur en sá gamli. Hann krefst meiri hugsunar og færri skotgrafa. Fyrir þjóðir sem kunna að fóta sig í flóknum og fjölþættum veruleika er hann opnari og tækifærin fleiri og fínni.
Tekið af slóðinni: http://visir.is/hid-mjuka-vald/article/2012701129995
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 20:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tenglar
Góðar slóðir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 18
- Sl. viku: 19
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar