Laugardagur, 1. desember 2007
"Bannfæring Siðmenntar"
Ég er mikið að velta því fyrir mér hvað félagið Siðmennt gerir næst. Þetta virðast vera öfgasinnaðir trúleysingar, sem berjast fyrir minni áhrifum trúar í samfélaginu. Ég hef ekki nokkra trú á því að þeir láti staðar numið eftir að litlu jólunum hefur verið snúið í ljósahátíð og námi í kristnum fræðum snúið í siðamenntarnám.
Ég er nefnilega kristinn skólastjóri og miðað við hreintrúarstefnu Siðmenntar verð ég að viðurkenna að það gæti orðið mér fjötur um fót í starfi mínu í framtíðinni að finnast Jesú bestur. Mér dettur í hug að "siðmenntaða fólkinu" finnist það vera ansi mikið á það hallað að stórir skólar þurfi að lúta stjórn skólastjóra sem hefur kristin gildi í huga. Eins og allir vita geta áhrif bæði bein og óbein af hálfu skólastjóra verið mjög mikil. Kristinn skólastjóri, sem hefur vanið sig á að tala reglulega við Jesú, gæti hugsanlega misst út úr sér í barna viðurvist orð eins og " Guð hjálpi þér" þegar einhver hnerrar eða " Drottinn sé oss næstur" þegar barn dettur í hálku, eða " Guð minn góður" þegar hann veit ekkert hvaðan á sig stendur veðrið.
Reyndar gæti ég hugsanlega sloppið þar sem ég er hvorki kona né verið áberandi í kristnu samfélagi. En ef svo hræðilega stæði á að skólastjórinn væri líka meðhjálpari, formaður sóknarnefndar eða bara í kirkjukórnun...já þá væru nú "kardinálar Siðmenntar" komnir í feitt. Ef kristinn skólastjóri er nú kona, sem hrifinn er af skarti verður auðvitað að gæta þess vel að hálsmen með krossum séu alls ekki í augsýn viðkvæmra barna siðmenntaða fólksins. Ef framangreindir skólastjórar stíga eitt feilspor biði þeirra ekki annað en "bannfæring Siðmenntar" frá öllu kristinlegu starfi.
Já kæru opinberlega kristnu skólastjórar í almennum skólum...við hljóum að vera næstir. Áhrif okkar kunna innan tíðar að verð mesta ógnin gegn "viðkvæmum" sálum trúleysingja.
En vitanlega getum við skólastjórarnir ástundað trú okkar á laun. Og það munum við auðvitað gera frekar en að verða bannfærðir af "páfum Siðmenntar."
Flokkur: Trúmál og siðferði | Breytt 8.12.2007 kl. 21:23 | Facebook
Tenglar
Góðar slóðir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ertu nú ekki full dramatískur minn kæri í að mála einhverja galdrabrennumyndir? Þessi fórnarlambatónn hrífur mig ekki né vekur mér meðaumkun. Hvað er þetta svo með þetta orðskrípi trúleysi? Er nú hægt að flokka fólk eftir því, sem það er ekki? Er það kannski viðleitni til að brennimerkja þjóðfélagshóp í því markmiði að gera sér skotmark til útrásar fyrir fordæmingarþörfina?
Líttu þér næst. Skoðaðu svo þá lygi og rökleysur, sem verið er að bera á borð fyrir börn í glitpakkningum kærlekans. Himnaríki, helvíti, sköpunarsögurnar tvær, þríeinn guð og allt þetta bla bla, sem hvorki ég né þú skilur né getur staðfest.
Þú vilt væntanlega halda áfram að ljúgaáð börnunum og loka á gagnrýna hugsun. Trú er hugtak yfir það sem þú getur ekki vitað.
Jón Steinar Ragnarsson, 1.12.2007 kl. 22:16
Þetta er nú bara snilldar færsla, góður húmor, þó eflaust falli hann ekki öllum vel Takk fyrir mig.
Linda, 2.12.2007 kl. 00:55
Satt og logið um stefnu Siðmenntar
Matthías Ásgeirsson, 2.12.2007 kl. 10:25
GÓÐUR Lói.
Kveðja
Guðrún Jóhannesdóttir, 2.12.2007 kl. 12:34
Jú þetta er svolítið fyndið hjá þér "loi". En með töluvert minna skirskotun til raunveruleikans en "Life of Brian" með Monthy Python til dæmis. Sú kvikmynd var á sínum tíma bönnuð í sumum löndum, en gerir grín að óseðjandi þörf manna í kring um upphaf tímatalsins fyrir frelsara.
Nú er ekki tekið svo alvarlega á guðlast lengur. Er kannski tími til að snúa dæminu við .
Sekta menn sem gera grín að sannfæringu sem byggja á rökhugsun, eða drengilegan baráttu fyrir mannréttindi ?
Morten Lange, 2.12.2007 kl. 18:03
Til Jón Steinars.
Ég veit í raun ekki hvaða lygar þú ert að tala um?
Þríeinn Guð, sköpun ect. Þetta eru fullyrtir hlutir jú, en sagðir útfrá sannfæringu. Við vitum ekki fyrir víst að þetta sé 100% rétt. En þú fullyrðir að þetta sé rugl og lygar. Þú veist það heldur ekki fyrir víst. Ertu þá ekki komin út í þína eigin skilgreiningu á lygum?
Einnig með að loka á gagnrýna hugsun er algerlega auglýsing á vanskilningi. Guðfræðinám, til að nefna dæmi, er væntanlega eitt gagnrýnasta fag sem er í boði í háskólum landsins. Engin kenning er kennd, heldur sett fram og gagnrýnd. Engin óskeikull sannleikur heldur misígrundaðar kenningar og röksemdarfærslur.
Börnin okkar hafa gott af því að læra fag útfrá þeim forsendum þar sem þau geta skotið sinni upplifun inn sem er alveg jafn greinargóð og hvað annað í fræðunum. - "Kannski er rigning því Jesú er að gráta því pabbi hans var að skamma hann?"
- ein 6 ára
Jakob (IP-tala skráð) 2.12.2007 kl. 18:28
Röklaust þvaður.
Jósep Húnfjörð (IP-tala skráð) 2.12.2007 kl. 22:24
Sæl öll
Þakkir fyrir athugasemdirnar.
Í umræðunni síðstu daga bendir margt til þess að siðmenntaðir einstaklingar ætli að leyfa fólki að hafa lítil jól í skólum landsins.
Þeir hafa örugglega komist að þeirri niðurstöðu eftir mikla rökhugsun, yfirvegun og gagnrýnin þankagang.
Lói.
Eyjólfur Sturlaugsson, 2.12.2007 kl. 22:46
Sæll Lói.
Finnst gott að sjá að við skólastjórar höfum skoðanir. Því miður finnst mér fámennur hávær hópur hafa náð völdum á umræðu sem á auðvitað rétt á sér.
Í skólum fer ýmislegt fram sem á að þola umræðu, þar á meðal kristin gildi.
Ég er algerlega sammála þér í skoðunum, en að sjálfsögðu á ég afar auðvelt með að bera virðingu fyrir skoðunum og trú annarra, enda unnið í 14 ár með börnum af mörgum trúflokkum og innan ættar minnar er umræða um trúmál opin, enda fólk þar líka sem ekki trúir.
En umræða um valdboð og bönn sem koma ofan frá er sérkennileg frá fólki sem talar um mannréttindi.
Það fólk á auðvitað að kynna sér starfshætti skóla áður en ráðist er á þá með kjafti og klóm.
Magnús Þór Jónsson, 3.12.2007 kl. 14:16
Þetta finnst mér ekki gott að lesa, Eyjólfur.
Ég á börn í skólanum hjá þér og þau voru nýlega að kvarta við mig yfir því að þurfa að fara í kirkju með skólanum um jólin. Dóttir mín var farin að kvíða þessu, hún vill ekki fara en þorir varla að tala um það í skólanum. Sonur minn hóf umræðuna, fór að tala um öll skiptin sem hann hefði verið dreginn í kirkju gegn vilja sínum á skólatíma, bæði í Vallaskóla og annars staðar, fannst þetta hið versta mál. Þeim líður vel í skólanum og standa sig vel en þetta finnst þeim vont. Ekki man ég til þess að foreldrar hafi verið spurðir heldur.
Mér datt því í hug að skrifa skólastjóra bréf og spyrjast fyrir um kirkjuferðir því ekkert stendur um það á vefsíðu skólans. Hugmyndin var í mestu kurteisi að kanna hvort nemendum yrði boðið upp á valkost, mér sárnar vanlíðan barna minna og ég satt að segja sé ekkert í námskrá eða grunnskólalögum að sem segir að skólar eigi valda nemendum vanlíðan vegna trúarskoðana þeirra.
En áður en ég sendi bréfið ákvað ég að kanna hvort ég væri að valda börnunum skaða með því að vekja máls á þessu, viðbrögð kristinna við saklausri beiðni um að sjálfsögðum mannréttindum sé fylgt hafa verið þvílík (eins og þessi ofsafengna færsla þín Eyjólfur sýnir). Ég ákvað því að leita á netinu, og sjá til! Hvernig á ég, sem foreldri, að geta haft samband við skóla barna minna þegar ég sé skólastjórann hegða sér svona?
Skólastjóri ræðst með offorsi, útúrsnúningum og skömmum að lífsskoðunarfélagi sem nemendur hans og foreldar eru meðlimir í. Kristilegt siðgæði? Ja, svona líka.
Dóttir mín er að ferma sig í vor hjá Siðmennt, sonur minn fermdi sig þar í fyrra. Hvernig ætli þeim liði ef þau sæu þessi skrif þín?
Það er von mín að þú dragir skrif þessi og hálfkveðnu vísur um lífsskoðunarfélagið Siðmennt til baka hið snarasta. Varðandi kirjuferðir, ekki kristnast þau á því sem þar fer fram en þarf virkilega að pína börnin?
Kveðja
Brynjólfur Þorvarðarson
Brynjólfur Þorvarðsson, 4.12.2007 kl. 20:56
Það á að heita trúfrelsi á landinu en samt sem áður er eingöngu kristni þröngvað upp á skólabörn.
Það ætti að þykja réttlátara að kenna allt eða ekkert og það er í raun sú stefna sem Siðmennt og ég sjálf aðhyllist. Fólk er að tala um rótgróið kristið samfélag Íslands en afhverju er þá ekkert kennt um Ásatrú, sem stendur nú Íslendingum nær þar sem að enginn þröngvaði þeirri trú upp á okkur með kúgunum og ofbeldi. Í raun stendur Ásatrú þjóðarsálinni nær sem trú sem við ástunduðum áður en við vorum svipt sjálfstæði og okkar mesti menningararfur Íslendingasögurnar eru frá þeim tíma.
En ekki er það nú kennt í grunnskólum landsins.
Ellý, 12.12.2007 kl. 19:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.