Sunnudagur, 23. júlí 2006
Vestfirðir og Dalir 7. - 13. júlí
Stutt ferðasaga: Þar sem við höfðum ákveðið að ferðaðst innanlands þetta sumarið var ákveðið að fara á Austfirði. Við fengum því miður ekki sumarhús hjá KÍ á Austurlandi og ákváðum þá að leigja okkur fellihýsi. Þegar að frívikunni kom reynist spáin vera hvað best fyrir Selfoss, en þar hafði varla sést sól allt sumarið. Næst besta spáin var fyrir Vesturland og Vestfirði og því var stefnan tekin þangað.
Föstudagurinn 7.júlí. Af einhverjum dularfullum ástæðum komumst við ekki af stað fyrr en um hádegi. Veðrið var mjög gott. Var ætlunin að vera á Írskum dögum á Akranesi frá kl. 14.00 og eitthvað frameftir degi. Líta á markað, skoða tívólí og gokart. Ekki komst nú tívolið af stað en við fórum niður í fjöru borðuðum nesti og litum svo á markaðinn. Þar keypti Gugga lítið en mjög fallegt málverk. Þá var ekið sem leið lá vestur í Dali og á Leifshátið í Haukadal. Ekki leist okkur nú nægilega vel á tjaldstæðin þar svo við fórum niður í Búðardal og settum fellihýsið upp þar. Þessi tjaldstæði við grunnskólann í Búðardal voru þau verstu og sóðalegustu á ferð okkar. Sólsetrið var fallegt við Hvammfjörðinn en hitastigið lágt um nóttina.
Laugardagurinn 8. júlí. Af einhverjum dularfullum ástæðum komumst við seint á fætur. En vorum þó mætt á Leifshátíð kl. 14.00 inni í Haukadal, einmitt um þann mund sem Geir Harde hélt ræðu. Við hittum fullt af brottfluttum Dalarmönnum enda var þarna furðu mikið af þeim. M.a hittum við Herdísi Ernu en hana höfðum við ekki hitt í nokkur ár. Skoðuðum víkingabæinn, heimsóttum Jónas og Áslaugu í tjaldið þeirra og fylgdumst með dagskránni ... ja vel fram eftir degi. Strákunum þótti hinsvegar dagskráin ekki neitt rosalega spennandi; kubbkeppni, hestasýning og ræðuhöld. Ákváðum þá að fara aðeins niður í Búðardal og koma aftur síðar um kvöldið. En þegar við vorum komin í Búðardal nenntum við ekki aftur inneftir, fórum í staðinn í göngutúr í Búðardal og borðuðum ís. Lásum svo fram eftir kveldi við notlegan hita frá miðstöðinni.
Sunnudagurinn 9. júlí. Merkilegt nokk...en okkur tókst að komast þokkalega snemma af stað enda var ákveðið að fara í sund í Stykkishólmi áður en við færum með Sæferðum um Breiðafjörð, en sú ferð átti að hefjast kl. 15.00. Gekk vel út í Hólm og þar biðu okkar afar góð tjaldstæði. Fórum í sund, en vorum þar fremur stutt vegna tímaskorts... en engu að síður var nauðsynlegt til að skola af sér ferðarykið. Ferðin með Sæferðum var að mínu mati afar góð. Veður var mjög gott og báturinn fór vel upp að berginu í nokkrum eyjum svo hægt var að sjá fuglinn þar í nærmynd. Örn sáu sumir, t.d Gugga en margir rýndu en sáu hann ekki liggjandi á hreiðri sínu. Í lok ferðarinna var dreginn skelfiskur um borð og öllum sem vildu boðið að gæða sér á honum beint úr skelinni. Rikki sá ekki ástæðu til að smakka en ákvað að bjarga trjónukröbbum út í sjó í staðinn. Við borðuðum svo á ágætu kaffihúsi í Stykkishólmi að ferð lokinni. Mjög góðir hamborgarar og ekta allt saman á þeim bænum. Þarna á kaffihúsinu fór okkur að hitna allverulega í framan, enda búin að vera úti í sól og vindi á hafi úti í margar klukkustundir. Reynist ég rauðastur allra og horfðu margir aðdáunaraugum á mig þarna á kaffihúsinu.
Mánudagurinn 10.júlí. Þurftum að vakna snemma til að ná Baldri yfir Breiðafjörð. Rétt slapp því það komust ekki fleiri bílar fyrir; við vorum síðust um borð. Átti víst að panta, sagði staffið. Nýji Baldur er ágætis ferja. Veðrið var gott og sjór sléttur. Við fórum síðan beinustu leið frá Brjánslæk til Patreksfjarðar þar sem við skildum fellhýsið eftir. Síðan var farið á Rauðasand. Það er nú meiri vegurinn þar yfir litla 10 km gróðurlausa heiði. En ferðalagið var þess virði. Rauðisandur er afar falleg sveit. Við dvöldum þar í fjörunni við Saurbæ um stund í mikilli veðurblíðu. Síðan fórum við að Byggðasafninu Hnjóti þar sem mamma tók á móti okkur og gaf okkur kaffi og með því. Að því búnu lá leið til Látrabjargs og var vegurinn þangað mum betri. Það var stórkostlegt að heimsækja þenna stað. Fuglarnir voru furðu gæfir og mátti þar sjá margar tegundir. Veðrið enn mjög gott. Lyktin úr bjarginu megn og sat í öllum fötum lengi á eftir. Eftir Látrabjarg var svo kjötsúpa heima hjá mömmu í Örlygshöfn. Þar komumst við líka í tölvu til að færa svolítið fleiri þúsundir á debetkortin (kostar sitt að ferðast um Ísland) og hlaða alla GSM símana og DVD ferðaspilarann og DS leikjatölvuna og ég veit ekki hvað. Um kvöldið var rölt um Patró en þar var gríðarlega mikið mý að gera okkur lífið leitt fram eftir kveldi. Stulli sýndi hetjulega baráttu er hann barðist við heilu mýflokkana með rababarastöngli einu að vopni.
Þriðjudagur 11.júlí. Við vöknuðum í roki og rigningu...dróst að fara framúr og út úr fellihýsinu. En létum það loks yfir okkur ganga og tókum saman. Kom þá í ljós að allar yfirhafnir drengjanna höfðu gleymst í Örlygshöfn (hinum megin fjarðar) kvöldið áður. Mamma ætlaði að koma með þær um hádegisbil. Notuðum við þá tækifærið og fórum í sund á Patró. Sundlaugin þeirra er glæný og stórglæsileg, þótt ekki sé hún stór. Þegar maður situr í pottunum horfir maður hátt út og yfir fjörðinn. Svo eftir sundið var farið að leita að sokkum til kaups enda táfýla farin að gera vart við sig á ferðalaginu. Mjög illa gekk að finna sokka í kauptúninu. Það hafðist á endanum í apóteki staðarins; þar fékkst eitt par....já nákvæmlega bara eitt par af hvítum sportsokkum. Eftir að hafa hitt mömmu ókum við til Bíldudals, en þar ætluðum við að líta á tónlistarsafn. Það var því miður lokað, en hægt að hringja í einhver númer, sem ekki svöruðu. Nú svo var bara ekið sem leið lá í átt til Bolungavíkur í roki og rigningu með stoppi við Fjallfoss, en þar rigndi merkilegt nokk ekki neitt. Á leiðinni upp Hrafnseyrarheiðina þurfti að skipta bílnum niður í fyrsta gír svo hann drægi fellihýsið upp. Myndaðist við það nokkur röð kraftmeiri bíla...en þeir þurftu að lúsast eftir okkur á 20 km hraða upp kröppustu beyjurnar. Vorum búin að plana að kaupa veiðleyfi í tilbúið vatn rétt hjá Þingeyri, en vegna veðurs hættum við við það. Tjölduðum svo í Bolungavík í sæmilegu veðri.
Miðvikudagur 12. júlí. Af einhverjum dularfullum ástæðum komumst við seint á fætur. Það var hellirigning þegar við tókum niður. Fórum í Sjóminjasafnið í Ósvör, sem er lítið en skemmtilegt safn tileinkað verbúðalífi íslenskra sjómanna. Á Ísafirði var prýðisveður og dvöldum við þar á gangi um staðinn í nokkurn tíma áður en við lögðum af stað inn eftir Ísafjarðardjúpinu. Eins og síðast þegar við komum á Ísafjörð fórum við inn í gamla bakaríið og keyptum okkur kleinuhringi....en þeir eru reyndar engin smásmíði. Stoppuðum af sjálfsögðu í Súðavík og litum á minningarreitinn vegna snjóflóðanna. Síðan var lítið stoppað fyrr en á Hólmavík. Tjaldstæðin á Hólmavík voru góð og kvöldblíða þar með sólsetri fallegu. Enduðum kvöldið með að borða á Cafe Rise. Það er ekki neitt sérstaklega góður staður. Esso jafngott held ég bara.
Fimmtudagur 13. júlí. Tókum daginn snemma á okkar mælikvarða og vorum komin í sund kl. 10.30. Sundlaug þeirra Hólmvíkinga er alveg ágæt þótt lítil sé. Svo var farið á Galdrasafnið. Þetta er dýrt safn og ekki svo voðalega merkilegt það sem þar er hægt að sjá. Ef ekki hefðu verið tveir afar frekjulegir en gæfir hrafnar við safnið hefði þetta verið fremur leiðinlegt. Þá má alveg vara við óhugnaði sem sumt vekur yngri börnum, sem þarna er haft til sýnis. Nú var ekið suður strandir enda átti að skila fellihýsinu á Selfossi kl. 15.00 um daginn. Það hefði kannski tekist ef ekki hefði sprungið á bílnum á hlaðinu á Brú í Hrútarfirði. En það var svo um kl. 17.30 sem við gátum skilað fellihýsinu. Á þessari suðurleið fór Keli að finna svo til í eyranu að við fórum með hann beint á sjúkrahús þegar á Selfoss var komið. Sem betur fer reyndist þetta ekki alvarlegar bólgur.
Að lokinni ferð: Þetta ferðalag er fyrsta langa útilega okkar í langan langan tíma. Höfðum farið áður í svona tveggja til þriggja nátta ferðir. Fjölskyldan var saman í nokkra daga og varð að sleppa sjónvarpi, tölvuleikjum og ýmsum öðrum sjálfsögðum þægindum. Þetta var gott búst fyrir fjölskyldueininguna. Veðrið var nær alltaf gott, fengum einn leiðinlegan dag og þrjá mjög góða.
Svo er það næsta ferðalag en það verður 12. og 13. ágúst en þá verður stórfjölskyldan í Fljótstungu í Borgarfirði. Svo næsta sumar....kannski Ítalía.
Allar myndir af ferðalaginu er svo að finna í albúminu hér við hliðina eða á slóðinni: http://loi.blog.is/album/VestfirdirogDalir/
Tenglar
Góðar slóðir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Við Guðbjörg höfum ferðast dálítið innanlands í sumar og nær undatekningalaust leitað uppi leiðinlegasta veðrið. Við fórum norður og þá datt hitastigið niður og raki jókst; við fórum þaðan til Egilsstaða og þá gerðist það sama. Daginn sem við fórum frá Egilsstöðum og heim birtist sólin þar en eldi og brennisteini tók að rigna hér á Selfossi.
Kveðja. Magnús Már og Co.
Magnús Már Magnússon (IP-tala skráð) 25.7.2006 kl. 21:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.