Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Dægurmál

Heimsókn í Selvoginn

T-bær í Selvogi

Þann 25. júní síðastliðinn ákváðum við með engum fyrirvara að renna niður í Selvog.  Búið að rigna mikið undanfarna daga og nú gafst loks þurr dagur. Okkur langaði líka að skyggnast eftir einhverjum bala til að tjalda á einhvern tímann seinna.  Sú leit bar ekki árangur en í staðinn fundum við nokkuð annað.

Við stoppuðum m.a hjá hraunhjúkum sem skera sig lítilega frá frekar tilbreytingarlausu landslaginu.  Og þar fyrir tilviljun fundum við manngengan og allstórann helli.  Hellirinn var þurr og víður og á tveimur stöðum voru gamlar beinagrindur af kind.  Þrep af mannavöldum voru niður í hellinn.

Við enduðum svo ferðalagið með því að fara í kaffi á kaffihúsinu T-bær.  Þetta er alveg sérstakt kaffihús, sem Sigfríður nokkur hefur komið á fót og rekur af myndarskap.  Hún segist vera með opið frá maí og fram í september og stendur vaktina ein lengst af frá morgni til kvölds.  Ef lítið er að gera hallar hún sér.  Þarna er boðið uppá kaffi, sælgæti og kökur.  Hún tekur einnig á móti stærri hópum og þá gjarna í kjötsúpu.  Á túninu í kringum kaffihúsið er tjaldstæði.  Því miður gleymdum við alveg að taka mynd af Sigfríði og kaffihúsinu hennar en fundum eina ágæta á Netinu.   Myndir úr ferðinni fylgja hér að neðan.


Fleiri myndir

17. júní og fleiri myndir frá Reykjanesgöngunni

Á 17. júní

Loksins tók ég mig til og kláraði að setja inn myndirnar úr gönguferðinni á Reykjanesi.  Til að sjá myndirnar smellið á "albúmin mín" undir Efni hér til hliðar og veljið þar albúmið Reykjarnesganga.  Myndatexti með myndunum segir hálfa ferðasöguna.

Svo voru teknar nokkrar myndir frá hátíðarhöldunum 17.júní á Selfossi.  Þær fylgja þessu bloggi hér fyrir neðan


Fleiri myndir

Bjórinn minn

Egils Premium
Egils Premium er bjórinn minn.  Þetta er nýleg tegund sem Ölgerð Egils Skallagrímssonar hóf framleiðslu á uppúr miðju síðasta ári.  Bjórinn er bragðmikill, gullinn úrvalsbjór með mýkt og góðri fyllingu.

Bruggarar hjá Egils hafa lagt sig fram við gerð bjórsins og er bruggunarferli Egils Premium lengra en annarra bjóra.  Bjórinn er tvímeskjaður og gerjunin hægari en við gerða annara bjóra fyrirtækisins. Auk hefðbundinna hráefna er notað  íslenskt bygg sem skilar sér í lagerbjór með sterkum karakter, mýkt í bragði og fyllingu.

Það eru bændur í Leirársveit sem rækta byggið sem er notað í Egils Premium. Ég mæli hiklaust með Egils Premium og Borgfiskum bændum.


Ganga með Hornstrandarförum

c_documents_and_settings_loi_desktop_gogn_myndirnar_minar_vori_06_100_1106.jpg

Við Gugga ákváðum að ganga með Hornstrandarförum og Ferðafélagi Íslands á Reykjarnesinu í gær.  Gangan hófst kl. 11.00 og var gengið með tveimur "köffum" til 17.00.  Gengið var frá Reykjanesvita í norður um strandlengjuna og misúfið hraun.  Þetta er nú fremur eyðilegt landslag ef satt skal segja en engu að síður um margt forvitnilegt t.d út frá jarðfræðilegu sjónarmiði. Veðrið var alveg þokkalegt; þurrt en lágskýjað og stutt í þokuna. 

Að göngu lokinni var farið í sund í Sandgerði(þar sem ég þurfti nú að gleyma sundskýlunni minni) og svo út að borða á matsölustað sem heitir Vitinn.  Að matnum loknum tók við samsöngur til kl. 11.00.  Þannig að við Gugga vorum nú ekki komin aftur heim fyrr eftir miðnættið.  

Þetta er í annað sinn sem ég fer í gönguferð með Horstrandarförunum og þessar ferðir eru vel skipulagðar hjá þeim og hin besta skemmtun.  Yfirleitt eru á bilinu 80 - 100 manns í hverri göngu. 

Hér að neðan má smella til að sjá myndir.


Fleiri myndir

Hvítasunnuhelgin

Ætlaði að vera búinn að segja ferðasöguna fyrir löngu.  En á föstudaginn fyrir Hvítasunnu fórum við vestur í Dali; ég Gugga, Rikki og Jana vinkona Rikka.  Veðrið á föstudagskvöldinu var afar fallegt og Dalirnir heilluðu. 

Laugardagurinn var notaður í að pikkast aðeins í garðinum hennar mömmu og svo fórum við í sund á Reykhólum og þaðan í kaffi á Reykjarbrautinni hjá Gústa og Herdísi.  Nauðsynlegt að fá svona af og til fréttir af mannlífinu í Reykhólasveitinni.  Svo enduðum við aftur í bláa húsinu á Brunná og grilluðum og fl.

Sjálfan Hvítasunnudaginn var lagt snemma að stað og ferðinni heitið í Vesturbyggð, nánar tiltekið í Örlygshöfnina, þar sem mamma og pabbi hafa fært búsetu sína.  Hvítasunnusteikin beið okkar þar og svo síðdegis skoðuðum við safnið sem mamma stýrir á Hjóti.  Eftir svartfuglsegg og einhverjar Arnfyrskar hveitibökur var svo haldið aftur heim í bláa húsið.

Mánudagurinn var notaður m.a í langa fjallgöngu.  Tiltekt  og síðan ekið heim á Selfoss.   Frábær ferðahelgi að baki með brúklegu veðri mestallan tímann.


Skólaslit

Á morgun verða skólaslit í Vallaskóla.  Þetta er stór dagur fyrir suma og kannski líka mig.  Þetta eru 10 slitin sem ég stjórna og í allt hef ég kvatt og útskrifað um 600 nemendur.  Ansi gott held ég bara.  Það leiðinlegasta við skólaslit er samt að kveðja kennara sem annaðhvort fara úr skólanum eftir mörg ár eða eru að láta af störfum eftir áratuga starf. 

Svo er bara að sjá til hvort ég tel að skynsamlegt sé að halda áfram sem skólastjóri.  Þetta er nú ekki auðveldasta starf í heiminum.


Fyrirmyndir

Það er ekki alltaf sem við fullorðnu erum góðar fyrirmyndir.   Þar má t.d nefna notkun reiðhjólahjálma og klæðaburð eftir veðri.   Við gerum mikið úr því að börn noti hjálma en það virðist samt sem áður vera orðin einhverskonar viðtekin venja að þegar börnin eru orðin um 10 ára gömul þurfi þau ekki að nota hjálma.  Við fullorðan fólkið notum nærri þvi aldrei hjálma.  Maður tekur beinlínis eftir því ef einhver fullorðinn hjólreiðarmaður er með hjálm á höfðinu.  Eina ástæða þess að börn nota ekki hjálma til 15 ára aldurs eins og bundð er í lög er að við fullorðna fólkið leyfum þeim að vera hjálmalaus.

Nú til dags nota  Íslendingar bíla eins og skjólflíkur.  Þeir fara ekki í hlýjan fatnað ef það á að skjótast eitthvað að vetralagi heldur flýta sér inn í upphitaðan bíl.   Þetta gengur náttúrulega yfirleitt upp eins og það að sleppa því að vera með hjólreiðahjálm.  En þegar einhver dettur eða ef bifreið drepur á sér í slæmu veðri er voðinn vís.   Áhætta sem við Íslendingar tökum gjarnan daglega.


« Fyrri síða

Bloggari

Eyjólfur Sturlaugsson
Dalamaður 
eyjolfur.sturlaugsson@gmail.com

 

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband