Leita í fréttum mbl.is

"Zone" eða svæði sem valda truflun á heilastarfssemi.

Ég var á fundi fyrr í kvöld þar sem einn fundargesta kom með þá tilgátu að ákveðnum "zone" eða svæði væru til þar sem svo mikil truflun á heilastarfsemi ætti sér stað að viðkomandi breyttu hegðun sinni gjörsamlega.  Þessu til staðfestingar benti hann á ákveðið svæði á Engjaveginum fyrir framan Vallaskóla.  Fólk væri með alla heilastarfssemi í lagi þar til þeir kæmu inn á ákveðið svæði en þá skyndilega bilaði öll skynsemishugsun. T.d stoppi fólk bíla sína á miðri gangbraut og "hendi" þar út börnum, eða börn fari einhversstaðar yfir götuna á milli bíla allstaðar annarstaðar en á gangbraut.  Þegar bæði fullorðnir og börn væru komin út af svæðinu þá væri heili þess farinn að virka eðlilega og allir snúa sér að verkefni dagsins.

Undirritaður er samfærður um að þessi kenning er rétt og telur slík svæði allmörg á Selfossi.  Sem dæmi má nefna Nóatún á álagstímum.  Fólk gengur glatt í bragði inn í verslunina, en fljótlega fer heilinn að snappa og fólk getur átt það á hættu að hreinlega sturlast þar; kaupir eins og lífið eigi að leysa, fólk og rífst, troppast og skammast yfir röðum, verðlagi eða starfsfólki.  En um leið og viðkomandi er kominn út þá hrekkur heilastarfssemin í lag aftur og við tekur sama gamla viðmótið.  Annað slíkt "zone" eða svæði er í kringum Esso bensínstöðina.  Þar fer fólk skyndilega í þann gírinn að það hefur skyndilega gleymt öllum umferðareglum; ekur þvers og kruss, bakkar og leggur bílum þannig að engin heilbrigð skynsemi er sjáanleg.  En um leið og af svæðinu er komið hrekkur aksturslagið aftur í rétta gírinn.

Held að væri skynsamlegt að kortleggja þessi svæði og hefja myndbandsupptökur af þeim til að sanna kenninguna.  Hver vill vera memm ?


Ég er þá eins og flestir...

Ég verð að segja að mér stórlétti þegar ég sat og horfið á sjónvarpfréttir á Rúv nú í kvöld.  Þar var birt niðurstaða úr könnun þar sem afstaða fólks til þess að takmarka aðflutt vinnuafl til landsins hafði verið skoðuð.   Samkvæmt fréttinni telja um 60% Íslendinga rétt að takmarka eitthvað streymi innflytjenda.  Úff  mikið var ég feginn að sjá þessar niðurstöður !

Ástæðan er sú að ég hef verið að fylgjast með pólitískum umræðum í sjónvarpi og blöðum og þar hafa allir frambjóðendur í Sjáfstæðisflokki, Framskóknarflokki, Samfylkingu og Vinstri grænum  verið 100 % sammála um að vera á móti afstöðu Frjálslyndaflokksins í þessum málum.  Þar sem mér hefur fundist innflytendaumræða Frjálslyndaflokksins mikilvæg og góð hefur mér liðið eins og dæmdum rasista undir viðbrögðum hinna flokkanna.  Vart þorað að minnast á við mína nánustu að mér finnist ekki skyndilegur fjöldi innflytenda vandamálalaus.  Heldur þvert á móti þá hafi ég bara talsverðar áhyggjur af þessari skyndilegri og stjórnlausu þróun.

En nú er semsagt bara komið í ljós að 60 % Íslendinga eru bara á svipaðri skoðun og ekki bara það heldur er meirihluti fólks í öllum flokkum nema Samfylkingu á þessari skoðun.   Um 70 % framsóknarmanna eru á þessari skoðun, svo dæmi sé nefnt.

Ég er þá eins og flestir aðir Íslendingar hvað þetta varðar þegar allt kemur til alls.


Rikkablogg

Þá er Rikki orðinn bloggari.   Upphaf þess er að Begga frænka hans gaf honum starfræna myndvél, sem hún var hætt að nota.  Rikki tekur nú myndavélina með sér hvert sem hann fer og tekur myndir.  Því var tilvalið að nota vefinn til að koma þeim á famfæri og geyma myndirnar.

Nú eru hans fyrstu myndir og fyrsta blogg semsagt komið í loftið.  Endilega lítið inn til hans.

Slóðin er www.rikki.blog.is


Júdó

Á Selfossi er starfrækt Júdódeild á vegum Ungmennafélags Selfoss.   Um tilvist þessarar deildar vissi ég fyrst þegar Keli sagðist síðastliðið haust hafa prufað að fara á júdóæfingu.  Hann hélt áfram að sækja æfingar og áður en langur tími var liðinn fór Stulli líka að sækja æfingar.  Stuttu síðar urðu þeir helteknir af íþróttinni.   Þegar ég fór að spyrjast fyrir um þetta kom í ljós að deildin er nokkuð virk með um 50 iðkendur á sínum snærum.

Hér á Selfossi fer mest fyrir handbolta, fótbolta og fimleikum.  Það er kannski í samræmi við íþróttina að deildin fer ekki mikinn í umræðunni en hlúir vel að sínu.  Ég vil allavega vekja athygli á þessari deild og þeirri frábæru starfssemi sem fer þarna fram.  Þarna er virkilega gott starf í gangi og deildin sendir ekki félaga á mót án þess að þeir komi ekki heim með fullt af verðlaunum.   Íþróttin reynir á snerpu, jafnvægi, lipurð og úthald.  Allir sem leggja rækt við hana fá mjög góða alhliða hreyfingu.


Ellimerki ?

Með árunum hef ég einhvernveginn orðið sannfærðari og sannfærðari um að ég hafi hlotið afar gott uppeldi og notið mikillar ástúðar og búið við örvandi og uppeldisvænar aðstæður.   Er farinn að horfa um öxl og hugsa um liðna tíð í slíkum ljóma að mér hitnar.   Ekki sé ég nema örfáa lítilsverða galla á uppeldi mínu.

Á hinn bóginn sé ég allstaðar galla á mínum aðferðum í uppeldinu.   Aðeins ein heit máltíð á dag og næstum aldrei hafragrautur.  Kók í lítravís og sofið frameftir í öllum fríum.  Algjörlega vonlaust að keppa við mömmu í þrifum, tiltekt og saumum.   Bjargar vísu heilmiklu hversu auðvelt er að kaupa heilu máltíðirnar.  Vantar samt enn tæki sem gengur frá þvottinum.

Þetta eru sennilega ellimerki; allt svo gott í "denn" og allt að fara úr böndunum í "núinu".


Og gröfin var tóm

Þá er hvíldardagurinn var liðinn, keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. Þær sögðu sín á milli: Hver mun velta fyrir oss steininum frá grafarmunnanum? En þegar þær líta upp, sjá þær, að steininum hafði verið velt frá, en hann var mjög stór. Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju og þær skelfdust. En hann sagði við þær: Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjá, þarna er staðurinn, þar sem þeir lögðu hann. En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann, eins og hann sagði yður. (Mark. 16.1-7)

Bridge á netinu

Ég var mjög glaður þegar ég fann loksins stað á Netinu þar sem hægt er að spila Bridge ókeypis.   Virkar mjög fínt og hægt að velja um nokkra staði eftir getu.   Síðustu daga hef ég svo verið að spila þarna.   Staðurnn er www.bridgebase.com  er einn sá vinsælasti í dag.  M.a er hægt að fylgjast með beinum útsendingum frá mótum og þessa helgina er t.d Íslandsmeistarmótið í sveitarkeppni sýnt.

En ég var samt að furða mig á því hversvegna þetta væri frítt, því engar auglýsingar voru heldur sjáanlegar og yfirleitt voru um 6000 manns að spila í einu á svæðinu.  Svo fóru að koma svona popp upp gluggar af og til þar sem verið var að auglýsa mót og keppni þar sem spilað var Bridge uppá peninga.   Svo þetta frábæra bridgesvæði  var þá ef vel var að gáð spilavíti og  þaðan komu að sjálfsögðu allir peningarnir. 

Já ekkert er alveg frítt, þegar að er gáð,  nema rigningin og af henni er oftast of mikið.


Það er fullkomnað

Á hjálagðri slóð er að finna afar góða hugvekju eftir Skúla Svavarson. http://www.sik.is/pistlar/pistill.asp?id=52  sem á einfaldan hátt gerir grein fyrir atburðum dagsins í dag.


Fermingamyndirnar komnar í albúm

Nú er kominn góður slatti af myndum frá fermingardegi Stulla inn í albúm.   Hægt er að skoða í albúmin hér til hliðar eða smella á þessa slóð: http://loi.blog.is/album/FermingStulla/

Stulli brosir


Einföldun væri vel þegin

Lífið er fullt af dásamlegum hlutum og tækifærum... það verð ég nú að segja.  Hinsvegar verða hversdagsleg atriði furðu flókin við venjulegan heimilisrekstur.  Tölvu- og fjarskiptatæknin er m.a annars að skapa mér ómælda aukavinnu.

Á heimilinu eru fjórar PC vélar, tvær leikjatölvur fyrir sjónvarp og tvær litlar leikjatölvur.  Það eru núna fjögur sjónvarpstæki, fjórar starfrænar myndavélar og tvær stafrænar upptökuvélar og ein videóupptökuvél.  Það eru 5 gsm símar og tveir ipod-arar.

Ég þarf helst að vera með rafvirkja einu sinni í mánuði að leggja fyrir rafmagnstenglum, þráðlausum sendum og sjónvörpum.   Það þarf vírusvarnir og nýja innsetningu á hugbúnaði með hverju tæki.  Það eru allir diskar að fyllast af stafrænum myndum og engin myndavél notar sama hugbúnað.  Flestir rafmagnstenglar eru með fjöltengli og út um allt svo hægt sé að stinga þar hleðslutæki í samband.  Hugsa að hleðslutækin séu ekki færri en 10 í notkun. 

 Mér er sagt að í framtíðinni munu fjöldamörg tæki  fyrr eða síðar renna saman í eitt.  Það ætti að verða munur.    Ég myndi gjarnan vilja að það væri til tæki sem væri sími, heimilistölva, sjónvarp, myndavél, leikjatölva og gagnageymsla.  Helst ætti bara að vera til ein tegund...t.d Samsung eða Sony.   Slík einföldun væri vel þegin.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Bloggari

Eyjólfur Sturlaugsson
Dalamaður 
eyjolfur.sturlaugsson@gmail.com

 

Apríl 2007
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.9.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 206650

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband