Fimmtudagur, 5. ágúst 2010
Í kapphlaupi við birkifetan
Birkifeti - Rheumaptera hastata
Birkiskógar og bláberjalyngsmóar eru kjörlendi birkifeta. Hann lifir fyrst og fremst á birki (Betula pubescens) og bláberjalyngi (Vaccinium). Flugtími birkifeta er fyrri hluta sumars, einkum í júní og fram í júlí, en fiðrildi hafa fundist á tímabilinu frá miðjum maí og allt til fyrstu daga í ágúst. Það heyrir þó til undantekninga að þau sjáist svo seint. Lirfurnar vaxa upp í samanspunnum laufblöðum frá seinni hluta júní og ná fullum vexti er líður á ágúst. Þær púpa sig á jörðinni, gjarnan innan um fallin laufblöð. Birkifeti brúar veturinn á púpustigi.
Mörgum finnst birkifeti með fallegri fiðrildum hér á landi og með stærri fetum. Vængirnir eru dökkir, svarbrúnir með flóknu mynstri af ljósum saumum. Bolurinn er líka mjög dökkur. Mynstrið er breytilegt og saumarnir misljósir, stundum nær hvítir en stundum mun dekkri og lítt áberandi á dökkum vængjunum. Lirfurnar eru nær svartar, nokkuð gljáandi, með ljósari blettum á hliðunum.
Birkifeti er nokkuð fast bundinn kjörlendi sínu og sést sjaldnast á flögri fjarri því. Honum reiðir misvel af eftir árum og þegar vel árar verður fjöldinn gríðarlega mikill. Grunur leikur á að birkifeta fari fjölgandi með hlýnandi loftlagi. Lirfurnar verða mikil átvögl þegar þær taka að ná fullum vexti um og upp úr miðjum ágúst ef vel árar. Þar sem mikið er af þeim sést greinilega merki á gróðri. Árið 2008 byrjuðu að berast fréttir að bláberjalyngsbrekkur í Dölum, á Snæfellnesi og sumstaðar á Vestfjörðum væru orðnar brúna yfirlitum. Græni vefur laufblaðanna var gjörsamlega uppétinn og einungis visinn og orpinn æðavefurinn stóð eftir á lyngsprotunum. Þetta endurtók sig á sömu slóðum árið eftir, þ.e. 2009 og stefnir nú 2010 í fjórða árið í röð þar sem Birkifetin klárar bláberjalautir í Dölum. Öll þessi sumur eiga það sameiginlegt að hafa verið hlý og þurrviðrasöm.
Nú er ég í kapphlaupi við birkifetan. Lifrunar eru í óðaönn að borða lyng og hafa þegar lagt undir sig feykistór svæði í Dölum. Ég hinsvegar þykist snjall með því að vera ofar í hlíðunum og þar ásamt einstaka öðrum svæðum er ennþá hægt að finna þessi líka fínu og yndislegu aðalbláber. Ég verð að viðurkenna að ég berjavinurinn er ekki hrifinn af þessu fiðrildi og tel mig hér vera að finna afar hvimleiðan galla á hlýjum og sólríkum sumrum.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Tenglar
Góðar slóðir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 18
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.