Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Ferðalög

Bara til...

Þegar kreppan er yfirstaðin og fólk farið að ferðast á nýjan leik þarf maður eiginlega að fara að leita að stað þar sem Íslendingar verða ekki að aðhlátursefni.  

Mig langar t.d ekki mikið akkúrat núna til London eða Kaupmannahafnar.   Veit ekki með Skotland, hvort það gengi.  Hinsvegar gæti ég vel trúað að Írland gengi ágætlega, þeim er alveg í blóð borið að hafa horn í síðu Englendinga; óvinir Englands eru næstum sjálfgefnir vinir þeirra.

Svo má trúlega alveg gefa sér að Færeyingar taki vel á móti manni og kannski Norðmenn.  Síðan er ég alveg viss um að allar Múhameðstrúarþjóðirnar hafa ekkert meira á móti okkur eftir bankakreppuna en fyrir hana.

Já...hversvegna skyldi það nú vera.


Vestmannaeyjar

Þá er maður nýkominn heim úr tveggja daga ferð með fjölskyldunni til Vestmannaeyja.  Ferðin var hin skemmtilegasta og veðrið dásamlegt báða dagana.  Við gistum á Farfuglaheimilinu í Eyjum og var fjölskyldan (13 manns) með húsið útaf fyrir sig.  Aðbúnaður var hinn besti í húsinu og staðsetning þess góð.

Krummi í VestmannaeyjumÞegar maður skoðar sig um í Heimaey kemur eiginlega á óvart hversu allt er snyrtilegt í bænum og á stöððum þar sem ferðamenn eru að skoða sig um.  Ótrúlegustu vegir eru malbikaðir og allar gönguleiðir vel merktar.  Þá kom það eiginlega á óvart hversu margt er þarna að skoða; okkur dugði tæplega þessir tveir dagar til þess að skoða og upplifa eyjarnar.

Annað sem kemur á óvart er að bærin sjálfur er allur " skipulegslega heilbrigður eða náttúrulegur" þ.e verktakar eru greinilega ekki búnir að skemma hann eins og flest ný hverfi á "uppbyggingar" svæðum í krinum höfuðborgina. Í eyjum eru ekki heilu hverfin nákvæmlega eins, með litlar lóðir, urmul að raðhúsum og blokkir með rassinn í hverri annarri.  Hér eru margskonar hús, sem sum snúa jafnvel öðruvísi en önnur.  Og nóg af plássi milli hverfa, fullt af opnum svæðum og götur eru breiðar.

Það eina leiðinlega sem maður upplifði var Herjólfur.  Hræðilega leiðinlegt að velkjast þetta fram og til baka í 3 klukkutíma.  Það verður rosalegur munur 2010 þegar Eyjamenn verða aðeins 20 mínútur í land.  Skattfé okkar er vel varið í þá samgöngubót.

Læt fylgja fallega mynd sem ég náði af Krumma og Eyjum.


Orðið þreytt fréttaefni

Nú þegar verslunarmannahelgin er ekki lengur mesta ferðahelgi ársins er ekki nein sérstök ástæða til þess að búa til allar þessar fréttir af henni.  Það finnst mér allavega.  Mér finnst orðið ferlega þreytt að sjá fréttamenn í sjónvarpinu með Ártúnsbrekkuna í bakgrunni og segja fréttir af umferð.

Það sama finns mér um að "planta" niður fréttamönnum vítt og breytt um landið á einhverjum samkomum eða útihátíðum og láta þá þylja upp eitthvað fréttnæmt.  Flestir flytja bara engar fréttir; segja hvernig veðrið er, hversu margir eru á staðnum og hvort lögreglan hafi haft mikið eða lítið að gera.

Það ferðast gríðarlega margir um jól, páska og hvítasunnu.  Sem betur fer þurfum við ekki að horfa á Ártúnsbrekkuna með fréttamann í forgrunni  í því samhengi.


mbl.is Umferð að þyngjast í átt til borgarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju hunsum við þessa hættu ?

Þegar íslenskir ferðalangar voru komnir til Tyrklands og um borð í rútur frá Plús ferðum, Úrval útsýn og Sumarferðum, var þeim öllum ákveðið sagt af fararstjórum ferðaskrifstofanna að vera EKKI í sólinni milli kl. 12.00 - 16.00.  Sólin væri sex sinnum sterkari en heima á Íslandi og þá er einnig hitinn mestur.  Þetta hljómaði ekki einu sinni eins og ráðlagning, meira eins og fyrirmæli; "enginn á að vera í sólinni milli kl. 12.00 - 16.00. "

Það þarf nú ekki að sökum að spyrja en Íslendingarnir voru á öllum tímum við sundlaugarbakkann, nema ef vera skyldi á morgnana; þá voru margir ekki vaknaðir.  Svo þarna hafðist blessaður landinn við á laugarbakkanum eða í lauginni yfir hádaginn (með hvíldum) í sexfaldri sól og 40 stiga hita (í skugga).  Sumir dag eftir dag í eina til fjórar vikur. Okkur sýndist á ströndinni að þar væri sama sagan hjá nágrannaþjóðum.

Eins og fréttin greinir frá, þá vitum við af þeirri hættu, sem getur fylgt stífum sóböðum...en hvað er það sem veldur því að við hikum ekki við að hunsa þessa hættu í flestum tilvikum... og það þótt hún geti leitt til dauða ?

 


mbl.is Sóldýrkendur meðvitaðir um hættuna á húðkrabbameini
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins ...Marmaris myndir komnar inn

Jæja þá rigndi nægilega mikið til þess að ég kláraði að eiga við  myndirnar frá Marmaris.  Ég hef ákveðið að setja um 120 myndir af ferðinni inn á vefinn í þessu kasti.   Miklu fleiri myndir voru teknar en sumar eru ekki vefhæfar ;).

Slóðin á myndirnar er hér: http://loi.blog.is/album/Marmaris2007/   

 Mæli með Marmaris við alla þá sem langar í skemmtilega sólarlandaferð !


Með DOLMUSH í Tyrklandi

dolmushStrætisvagnakerfið í Marmaris var skemmtilegt.  Strætisvagnarnir(DOLMUSH-arnir) eru litlir; ekki meira en 20 manns í sæti. Hinsvegar var oft stappað í þá fólki og ég veit eiginlega ekki hversu margir gátu troðið sér inn í einn vagn.  Nafnið Dolmush þýðir líka " troðið eða stappað". Ökumennirnir eiga vagnana sjálfir og sjá um rekstur þeirra.   Strangt eftirlit er með vögnunum og þurfa þeir að uppfylla nokkuð strangar kröfur um ásigkomulag og öryggi.

Vagnarnir eru ekki á tímaáætlun en  Þeir aka hinsvegar fyrirfram ákveðna leið.  Bíðskýli eru um allt þar sem hægt er að bíða í skugga eftir vagninum en einnig  er hægt að veifa þeim hvar sem er á leið þeirra til þess að fá far.  Þá stoppa þeir ef þeir eru ekki fullir.   Sami háttur er viðhafður inni í vagninum, maður segir bara stopp og þá stoppar vagninn og manni er hleypt út.  Flestir vagnarnir voru aðeins opnir að aftan og ef var troðið í þá komst maður ekki með fargjaldið til vagnstjórans.  Þá rétti maður einfaldlega peninginn næsta manni sem kom þeim áleiðis til vagnstjórans.  Stundum fékk maður meira segja til baka meða sama hætti.

Þetta er furðu þægileg ódýr og afslöppuð þjónusta og aldrei þurftum við að bíða lengi eftir vagni, enda fjöldi þeirra talsverður.   Tyrkirnir stóðu alltaf upp fyrir eldra fólki og konum.  Hinsvegar er ég ekki viss um að þeir hafi vitað hvað biðröð er.


Svona er það þarna

Í Tyrklandi er bannað að byggja hús á ferðamannastöðum frá maí – nóv.  Þetta er gert svo byggingaframkvæmdir trufli ekki ró gesta Tyrklands.  Því má víða sjá hálfkláruð hús og hótel í Marmaris.100_2388 

Árið 2005 var ráðist að fullri hörku gegn verðbólgu í Tyrklandi og m.a var gerð myntbreyting.  Nýja tyrkneska lýran er um 48 íslenskar krónur.   Við myntbreytinguna var hvorki meira né minna en 6 núllum slátrað, þ.e 1 ný líra er jafnmikið og 1.000.000 gamlar.  

Fram til ársins 1995 þurftu Tyrkir ekki að taka bílpróf.  Þeir þurftu aðeins um 18 ára aldur að sýna fram á að þeir væru heilbrigðir.  Þá máttu þeir keyra bíl.  Það eru því aðeins rúmlega 10 ár síðan að Tyrkir fóru að læra umferðareglur og ýmis öryggisatriði.  Þetta má glögglega sjá í umferðinni í Tyrklandi; hún er kaos.    

Tyrkneskir karlmenn mega giftast konum sem eru kristnar eða gyðingar.  Þeir mega hinsvegar ekki giftast konu sem er búddatrúar.  Tyrkneskar konur mega hinsvegar ekki giftast nema múslimum.  Margir tyrkneskir karlmenn sem vinna við ferðaþjónustu reyna að kynnast vestrænum konum og komast með þeim úr landi.  Þetta er draumur og takmark sem aðeins þeir “hólpnu” ná.      Við urðum áþreifanlega vör við þetta í ferðinni. 

Vinnudagur venjulegs þjóns á hóteli eða skemmtistað eru um 16 tímar á dag.  Engir frídagar og  stundum ekkert kaup nema þjórfé.  Engu að síður eru þetta eftirsóknarverð störf.  Best er að vera þjónn á fínu hóteli, sem jafnvel starfar allt árið.


Gamla góða Frón

Þá er fjölskyldan komin aftur til landsins eftir viðburðarríka og skemmtilega dvöl í Tyrklandi.  Vorum ekki komin fyrr en kl. 8.00 í morgun...úff hvað þetta var langt og þreytandi ferðalag. 

Aldrei þessu vant þá varð enginn veikur í ferðinni (fyrir utan hefðbundin ofnæmi) og það þrátt fyrir ansi mikinn hita á köflum.  Reyndar upplifðum við að það er ekki sjálfgefið að allir komi heilir heim.  Pabbinn í einni fjölskyldunni á hótelinu okkar dó úti (hjartaáfall) ytra.

En ferðin var, þrátt fyrir ofangreint,  í heild góð og allir ánægðir.  Teknar hafa verið mörg hundruð myndir á margar vélar og minniskort.  Einnig klukkutímar á dvd.  Svo það verður einhver bið á að myndir fari að birtast á netinu.  Skelli inn fróðleiksmolum um Tyrkland og Marmaris næstu daga.  Fer að vinna í myndunum þegar hann fer að rigna.

 


Bloggari

Eyjólfur Sturlaugsson
Dalamaður 
eyjolfur.sturlaugsson@gmail.com

 

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband