Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Það snjóar yfir vorið

Vetur ríkir

Það er ennþá úlpuveður um allt land.  Fyrir norðan skafa menn rúður og spóla í snjó á sumardekkjunum sínum.   Í kortum veðurfræðinga er áfram kuldi næstu daga.  Það verður komið fram undir mánaðarmót þegar tekur að hlýna á ný og þá er ekki spáð meiri hita en svona 8 gráðum.   Vorið hefur staðið í stað vikum saman og þegar það loksins kemur verður tæpur mánuður þangað til daginn tekur að stytta á ný.

En eitt er víst allir hafa nóg til að tala um. Veðrið er og verður daglega til umfjöllunar þangað til vorið hefur að alvöru innreið sína.


Stafrænar myndir

Mér er orðið ljóst fyrir nokkru að ég er ekki einn um það að koma ekki stafrænum myndum mínum á staði þar sem aðrir geta skoðað þær.  Hundruðum saman safnast þær upp á harða diskinum mínum.  Ég tek skorpu og skorpu í að fara í gegnum myndir í myndvinnsluforriti; eyða rauðum augum, breyta lýsingu og "kroppa" þær til.  En síðan eru bara myndirnar þarna. Sem betur fer eru þær nú í fartölvu svo ég get þegar mikið liggur við tekið tölvuna og farið með fram í stofu og sýnt gestum nýjustu myndirnar úr síðasta afmæli eða ferðalagi.  En einhvernveginn þá er maður ekki vanur því, og það er minna mál að setjast niður og fletta myndalbúmum heldur en að setja "show" á tölvu í gang fyrir gesti.

Þá verð ég að viðurkenna að ég hef áhyggjur af öllum þessum framförum í rafrænni gagnageymslu; mun ég t.d geta notað tölvu eftir 5 ár til að lesa CD gagnadisk ?  Tæplega.   Og hvað ef blessaði harði diskurinn minn hrynur nú (reyndar ekki líklegt ég er með ASUS) ?   Eina ráðið sem ég sé er að drullast til að skrifa myndirnar á CD disk og láta framkalla þær á gamla máttan, eða reyna að fjárfesta í perntara sem skilar sömu myndgæðum.  Já aftur til fortíðar til að redda sér.

Allavega maður þarf að hafa sig allan við í umsjón með þessum myndum.  Svo eru það gömlu vídeóspólurnar með fjölskyldumyndunum...en það er nátttúrulega saga í annað blogg.


Samkeppni

Ef maður ber saman vexti stærstu bankanna þriggja, sem reyndar er æði mikil vinna, er niðurstaðan að óverulegur munur er á kjörum þeirra.  Ef fengin eru tilboð í tryggingar frá tryggingafélögum kemur ekki í ljós mikill  munur, en samt er mjög flókið að bera tilboð tryggingafélaga saman.  Ef skoðuð er verðskrá stærstu olíufélaganna er óveruelgur munur á bensíni og olíu hjá þeim.  Ef bornar eru saman nokkrar vörutegundir í Bykó annarsvegar og Húsasmiðjunni hinsvegar finnst ekki mikill verðmunur.  Ef skoðuð er gjaldskrá Og vodafone og Símans finnst ekki mikill munur.  Næstum enginn munur er á gjaldskrá orkusölufyrirtækja á rafmagni og svo framvegis.

Ofangreindir þættir er stór sneið í neyslu hvers og eins og ekki hægt að velta því fyrir sér hversvegna ekki sé meiri samkeppni. Öll þessi fyrirtæki sýna góðan hagnað hvert einasta ár.  Að maður skuli treysta þeim til þess að vera með heiðalega álagningu og að maður skuli vera viss um að ekki sé verðsamráð -  slíkt hvarflar varla að nokkrum manni.  En samt líðst þetta ár eftir ár !


Áfengi og megrun

Samkvæmt þvi sem ég les er alkahól ein tegun orku, sem líkaminn vinnur úr.  Alkahólið er þar að auki yfirleitt umkringt sætum efnum ýmiskonar, sem verður oft að ljúffengum drykkjum t.d vínum eða bjór.  Þessvegna er áfengi ekki besti vinur þeirra sem vilja grenna sig eða eru stöðugt í aðhaldi til þess að fitna ekki.    Ég átta mig hinsvegar engan veginn á hversu mikill óvinur áfengið er heilsu manna út frá þessu sjónarhorni.  Ljóst er að hin hættan, þ.e hættan á fíkn eða tjóni ýmiskonar undir áhrifum er svo miklu sýnilegri og áþreyfanlegri heldur en offituþáttur í neyslu áfengis.   Eiginlega verður maður svolítið ruglaður við það að lesa texta um skaðsemi áfengis á megrunarkúra.

Ekki verður nú beinlínis sagt að það séu háværar raddir er vara við orkumagninu í áfengi, en þó er það svo að ýmsir framleiðendur setja á markað fitu- og hitaeiningasnauðara áfengi t.d bjór.  Það eru nú allmargir sem velja slíkt megrunaráfengi þegar þeir fá sér brjóstbirtu.  Já hitaeiningasnautt áfengi selst alltaf betur og betur.   Mun auðveldara er nú að vera úti að skemmta sér með áfengi  án þess að fitna um leið.   "Drekkum og grennumst" fer fljótlega að heyrast fjöllunum hærra.


Sumar & hiti

Ljósir drengir

Fyrsti alvöru sumardagurinn er í dag hér á Selfossi.  Hitinn orðin svo hár á íslenskan mælikvarða að hægt er að vera úti án þess að fara í utanyfirhöfn.  Og  í kvöld koma allir þessir ljósu Íslendingar  meira eða minna rauðir inn úr birtunni.  Þol húðarinnar fyrir sól er með minnsta móti á Íslandi og þeir ekki alveg tilbúnir.   Ekki er enn búið að kaupa sólarvarnarkremið.

Þökk sé vísindum að til er sólarvörn, sem er bráðnauðsynleg vara meira eða minna allt sumarið.  Fyrir mig hinn ljósa mann er sólarvörn himnasending.  Sem barn brann ég og brann alla fergurstu sumardagana.  Notað voru þau krem sem til voru og sett Nivea að júgursmyrsli á brunan að kveldi. Næsta dag varð maður að vera í peysu upp í háls hversu gott sem veðrið kynni að vera.

 En núna getur maður leyft sér að sitja eða ganga  á góðviðrisdögum léttklæddur í sólinni.  Meira segja orðið pínulítið brúnn.   Já þökk sé blessuðum sólarvarnarkremunum öllum.


Tölvuleikir

c_documents_and_settings_loi_desktop_gogn_myndirnar_minar_mislegt_gow2_ps2box-temp-160.jpg

Merkilegt að nánast því öll fréttaumfjöllun um tölvuleiki er neikvæð.  Mestur hluti allrar umræðu í uppeldislegu tilliti er einnig neikvæð þegar tölvuleiki ber á góma.   Það virðist hreinlega vera mikil gjá á milli kynslóða.   Mér virðist sem eldra fólki átti sig ekki á hversu tölvuleikir eru ráðandi í menningu okkar.   Gríðarlegur tími og stór hluti alls frítíma barna, unglinga og hóps yngra fólks fer í að spila og njóta tölvuleikja.   Að setjast við tölvu, tengjast öðru fólki og hefja spilun verður sífellt algengari í heiminum.  Sannarlega eru á þessu skuggahliðar en alveg hreint ótrúlegt hversu lítilli umræðu er varið í hversu jákvæð slík tómstundaiðkun geti verið.

Margar kannanir hafa verið gerðar á ungu fólki og tölvuleikjaspilun þeirra.  Það sem er fyrst og fremst neikvætt við þessa spilun er að hún er afar óhentug fyrir líkamann til lengri tíma.  Kyrrsetan og lítil hreyfing getur orðið hættuleg ef of mikið er spilað.   Og ef of mikið er spilað getur það í raun verið fíkn sem þar er á ferðinni.

En jákvæðu hliðarnar eru margar  m.a útrás fyrir spennu, þjálfun í einbeitingu og rökhugsun, útrás fyrir sköpunargleði og gleðin yfir því að áorka einhverju sjálfur (sigurtilfinning).   Það skiptir máli að öll fjölskyldan geti spilað tölvuleiki á einhvern hátt þannig að tölvuleikir séu virkt umræðuefni á heimilinu, alveg eins og að öll fjölskyldan er saman íeinhverju öðru; íþróttum, bóklestir og fl..  Fyrirmyndir þeirra fullorðnu skiptia máli og aðhald þeirra gagnvart börnunum líka, t.d svo að ungt fólk "skippi" öllu fyrir tölvuleikina heldur axli ábyrgð á ýmsum þáttum í lífi sínu.   Að axla ábyrgð á skynsamlegri spilun tölvuleikja er viðfangsefnið. 


Við fáum ör í lífsins göngu

Guð vill ekki að við einangrum okkur frá kvöl og þjáningu þessa heims. Við það að elska aðra, þjóna öðrum og fara eftir Guðs vilja, komumst við ekki hjá því að óhreinkast, særast og hljóta ör. Guð vill svo fá að sjá þessi ör þegar við stöndum frammi fyrir honum á efsta degi. Guð vill fá að sjá okkur taka þátt og óhreinka búninginn okkar. Líkt og Jesús gerði þegar hann kom til jarðarinnar. Hann var ekki með neinn tepruskap og því ættum við ekki heldur að vera með tepruskap. „Til þessa eruð þér kallaðir. Því að Kristur leið einnig fyrir yður og lét yður eftir fyrirmynd, til þess að þér skylduð feta í hans fótspor“ (1.Pétursbréf 2:21).

© Youth Specialties, Inc 1994


Graslaukurinn minn

Graslaukur

Það vorar hægt þetta árið hér á Selfossi.   Aðeins nokkrir vorboðar í garðinum enn sem komið er.  Í morgun var fannhvít jörð á að líta , en snjórinn bráðnaði reyndar fljótlega í sólinni.  Graslaukurinn minn er þó orðinn það vaxinn að vel er hægt að leggja sér hann til munns.   Eiginlega tek ég meira mark á graslauk og rababara sem vorboðum heldur en ýmsum blómum sem kunna að blómstra snemma.   Svo nú er ljóst að vorið er komið því graslaukurinn minn bragðast bara afar vel.


Hvort heldur þú með snjónum eða rigningunni ?

Nú í umhleypingum og frekar kaldri tíð, miðað við árstíma, kom upp í huga mér spurning, sem ég spurði gjarnan nemendur mína þegar snjórinn og rigningin skiptust á að hafa yfirhöndina.  Ég spurði þá " Hvort heldur þú með snjónum eða rigningunni ?"  Það virtist vera alveg sama hvenær að vetri og hvar var spurt; alltaf héldu þau með snjónum. Átti það bæði við sunnan heiða sem norðan.   Einstaka sinnum var hópurinn ekki samstiga ef komið var fram yfir sumardaginn fyrsta.     En afhverju héldu þau með snjónum ?    Því áttaði ég mig aldrei fyllilega á.

Árborg í blóma

Allt í blóma

Árborg er heiti sveitarfélags, sem oftar og oftar heyrist í þjóðfélagumræðunni.  Ástæðan er sú að sveitarfélagið er í örum vexti og telur nú íbúa sína í þúsundum (7.000).

Fjölgunin á Árborgarsvæðinu og ekki síst á Selfossi er mjög mikil, sem veldur því að það eru alltaf færri og færri hlutfallslega sem segjast vera fæddir og uppaldir á staðnum.  Best gæti ég trúað að innfæddir Selfyssingar væru nálægt 40 % íbúa.  Þessi stóri hluti íbúa sem eru aðfluttir úr öðrum sveitarfélögum eða jafnvel öðrum landshlutum eru að koma á svæðið með von um meiri hagsæld.   Þessi samsetning íbúa minnir nokkuð á vilta vestrið.  Sífellt er verið að nema land, byggja og framkvæma.  Uppgangur í flestu og stöðugt aukin þjónusta og fleiri verslanir.   Samfélagið er stöðugt að fást við að skapa hefðir og móta menningu staðarins.   Þetta er hreinlega svæði tækifæranna ef þannig er litið á hlutina.  

En hverjir eru þá Selfyssingar ?  Þar sem hér gætir svo mikilliar fólksfjölgunar, þá líta allir íbúar á það sem sjálfsagðan hlut að fá nýtt fólk og nýja strauma.  Því er hinum nýja íbúa ekki tekið sem gesti, sem þarf að kynnast staðnum og aðlagast, heldur er hann strax frá fyrsta degi orðinn sannur Selfyssingur. 

Óneitanlega er Árborg spennandi staður og gaman að vera bæði þátttakandi í uppbyggingunni og áhorfandi að breytingunum.  Það er jú afar upplífgandi að búa við athafnasamt og vaxandi umhverfi.  Óskar maður ekki börnum slíks umhverfis, ef maður getur valið ?


Næsta síða »

Bloggari

Eyjólfur Sturlaugsson
Dalamaður 
eyjolfur.sturlaugsson@gmail.com

 

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband