Leita í fréttum mbl.is

Annað sætið

Júdóglíma Kela

Keli hélt á sitt fyrsta júdómót í gær (sunnudag) í Reykjavík.  Hann hefur nú ekki æft lengi og er með hvíta beltið, sem er víst neðst í erfiðleikastiganum.  Keli glímdi ekki margar glímur á mótinu, en hafnaði engu að síður í öðru sæti í sínum þyngdarflokki.  Hér til hliðar má sjá hann í glímutökunum.

Annars er furðu skemmtilegt að horfa á glímu.  Hlutirnir gerast hratt og óvænt og hin besta skemmtun.  Íslensk glíma er mun daufari og tilþrifaminni öllj í samanburði við júdóið.


Allt er þá þrennt er

Þá er komið að elsta drengnum.  Keli og Alexsander tróðu upp á árshátíð 10. bekkjar á Hótel Selfossi í gær með nokkur lög.   Þetta var frumraun þeirra saman á sviði og tókst þeim vel upp.

Eitt laganna fylgir hér með í myndbandi (sjá til hliðar fyrir neðan könnunina )


Að vera skólastjóri

Já ég er skólastjóri.  Stundum hitti ég kennara sem langar alveg óskaplega mikið til þessað verða skólastjórar og vinna leynt og ljóst að ná þessu markmiði sínu.  En skólastjórar eru frekar fáir, miðað við fjölda kennara svo margir ná aldrei þessu takmarki sínu.

Ég hitti líka fólk þótt fátítt sé, sem skilur ekkert í því að ég vilji vinna þessa vinnu.  Nefna öll þessi agamál, starfsmannamál og jafnvel einhver foreldravandamál. 

Þegar vel gengur er gaman að vera skólastjóri og þá ekki síst í stórum skóla.    En stundum er þetta starf einhvernveginn svo ótrúlega erfitt að maður kemst ekki hjá því að spyrja sig hvort það sé þess virði.


Stulli ber trumbur

Það er skammt stórra högga á milli í bókstaflegri merkingu.  Eftir að Rikki hafði sýnt fiðlutakta sína tóku Stulli og Árni góða rispu saman á trommunum.  Einbeitingin var mikil og þeir sköpuðu þarna heilmikið af góðum hávaða.  Hægt er að hlusta og sjá þá hér á síðunni.

Myndband með þeim Stulla og Árna er hér til hliðar fyrir neðan skoðanakönnunina.


Fyrsti tónfundurinn hans Rikka

Rikki byrjaði á læra á fiðlu í september og hefur þvi verið í rúma tvo mánuði að læra á þetta merkilega hljóðfæri.  Rikka kveið nú talsvert fyrir þessu, enda hafði hann aldrei spilað fyrir aðra áheyrendur en heimilisfólkið.  En þessi frammistaða Rikka var tekin upp og fylgir hér með.

Sjá fyrir neðan skoðanakönnunina hér til hliðar er myndbandið.


Læknirinn sagði...

Ég hef undanfarin dægur fundið fyrir einkennilegum seiðingi í hægra gagnauganu.  Líkt og æðarnar væru að slást sundur og saman og fylgdi dofi út á kinn og afturfyrir eyru.  Heldur hefur þetta verið að ágerast og í dag fann ég fyrir léttum hausverk og helludoða á mestöllum hægri helmingi höfuðsins.

 Það var því ekki seinna vænna en að leita lækis áður en ég fengi heilablóðfall eða því nú verra.  Læknirinn skoðaði mig ekki mikið.  Mældi blóðþrýstingi, og potaði í mig á nokkrum stöðum í baki, hálsi og höfði.  Svo sagði hann að ég væri með álagsverk, trúlega vegna andlegrar áreynslu.  Ef ég næði að slaka meira á hyrfi verkurinn. 

Hann bauðst einnig til að lækna þetta í einni svipan með nálastungu, sem ég þáði.    Eftir að heim kom hef ég leitað logandi ljósi að leiðum til að slaka á.  Og þar er ég núna í ferlinu.

 

 


Hvert ætti að fara ?

Rikki á Benidorm 2005

Jæja nú líður óðum að því að fjölskyldan þarf að fara að ákveða sig hvert hún ætlar næsta sumar.  Yfirborð ferðasjóðsins hækkar jafnt og þétt og í augsýn að fara með alla fjölskyldumeðlimina eitthvað erlendis.

Síðustu tvö skiptin var farið á Spán, svo nú er kannski kominn tími til að skoða eitthvað annað.  Gardavatnið á Ítalíu var nú lengst efst á óskaslistanum en nú er Tyrkland og Krít að koma inn í myndina.  Svo má ekki gleyma því að alltaf þegar við höfum ákveðið að fara til einhvers ákveðins lands...höfum við alltaf endað í einhverju öðru landi.

 Þannig að það er trúlega ekkert að marka þessi áform og óskir okkar hingað til.


Að hræðast Múslima !

Guðjón Kristjánsson formaður Frjálslynda flokksins mun hafa sagt í sjónavarpsviðtali á dögunum að hann óttaðist múslima.   Hafa ýmsir bent á að þetta séu hreinir kynþáttafordómar.

Ég held að afar margir Íslendingar séu á varðbergi gagnvart múslimum.  Ég er veit fyrir víst um fólk, sem fékk nýja nágranna þar sem fjölskyldufaðirinn var múslimi af arabísku bergi brotinn.  Þetta friðelskandi og grandvara fólk varð talsvert óöruggt gagnvart hinu nýju nágrönnum.  Þau voru áhyggjufull en áttu mjög erfitt með að útskýra hversvegna.  Ég held að þessi ómeðvitaði ótti sé eitthvað sem fólk feli þegar hann kemur upp á yfirborðið.  Fólk vill síst af öllu vera orið sekt um kynþáttafordóma.

Þegar Guðjón Kristjánsson segist óttast muslima er hann eflaust að segja það sem margir hugsa en þora ekki að segja.  Umræða um múslima og nýbúa getur orðið til að upplýsa fólk og þá dregur úr þeirri hættu að fólk finni til öryggisleysis eða ótta gagnvart ákveðnum hópum nýbúa.

Íslendingur sem ekki kann ensku en þarf að gera sig skiljanlegan á einhvern hátt þegar hann pantar mat á matsölustað.....má hann ekki fyllast öryggisleysi án þess að það séu kynþáttafordómar ?


Umræða ekki fordómar

Þegar þingmaðurinn Magnús hóf umræðu um að við Íslendingar gætum stjórnað betur streymi og viðtöku á útlendu vinnuafli til landsins, stakk hann á stórt kýli.  Ég er einn þeirra sem tel að þessi mál verðskuldi meiri umræðu en verið hefur, ekki síst til þess að málefni þessa fólks séu ekki í þeim ólestri sem þau virðast vera.  T.d virðist það kosta alltof mikið fyrir fólkið að fara og verða sér úti um íslensku kennslu.   Þá virðist það vera alltof algengt að vinnuveitendur ætli að sjá um að fólkið fái kennitölu hjá Hagstofunni, en annaðhvort gleymi því eða dregur það á langinn...með þeim afleiðingum að börn þessa fólks kemst ekki í skóla strax að hausti.

Mér fannst Magnús vera varfærinn í umræðu sinni enda málið vandmeðfarið.  Minnsta ónærgætni er strax túlkuð sem fordómar.  Frjálslyndi flokkurinn á heiður skilið fyrir að hefja þessa umræðu.  Við Íslendingarnir sem viljum þessu fólki vel, verðum að vera skipulagðari í móttöku þess. Annars fer öllum að líða illa yfir þessu og þá er stutt í fordómana.

Ég hef hingað til ekki talið mig vera fordómafullan hvað þetta varðar.  Mér hefur samt ekki tekist að venjast því að þurfa að kunna erlend tungumál til að fá afgreiðslu í verslunum.


Bloggari

Eyjólfur Sturlaugsson
Dalamaður 
eyjolfur.sturlaugsson@gmail.com

 

Nóv. 2006
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband